Þrír menn sem voru á ferð við Hnausapoll á Fjallabaksleið nyrðri í gærkvöldi, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir vegna veðurofsans, misstu bíla sína niður í vök og þurftu aðstoð björgunarsveita. Mennirnir voru allir komnir í skjól milli fimm og sex í nótt og björgunarsveitarmenn komust til þeirra rétt fyrir hálfsjö í morgun. RÚV segir frá þessu á vef sínum.

Björgunarsveitir fengu neyðarboð frá mönnunum skömmu eftir tvö í nótt og þá voru björgunarsveitir frá Hvolsvelli, Hellu og Flúðum sendar af stað til að bjarga mönnunum. 

Margrét Ýr Sigurgeirsdóttir stjórnaði aðgerðum björgunarveitarfólks í nótt og sagði í samtali við RÚV að mennirnir þrír hefðu verið á ferð á tveimur bílum og hafi ætlað að hjálpa félaga sínum, sem hafði fest sinn bíl á Frostastaðahálsi, þegar þeir festu bílana sína í vök.

Allir komust úr bílunum en þeir voru blautir og kaldir og þurfu að ganga um þrjá kílómetra til að komast að bílnum sem var fastur á Frostastaðahálsi. Þeir biðu svo í bílnum eftir björgunarsveitarmönnum og miðstöðin í bílnum sem var fastur hélt á þeim hita.

Eins og áður segir komust björgunarsveitarmenn að bílnum rétt fyrir hálfsjö í morgun og þeim tókst að losa bílinn. Nú eru allir á leið til byggða í samfloti en það ferðalag sækist seint, því veðrið er vitlaust og færðin er slæm, svo aðstæður eru með erfiðasta móti á þessum slóðum, að sögn Margrétar.

Um tuttuga manns taka þátt í þessum björgunaraðgerðum, en fleiri höfðu verið kallaðir út og til stóð að senda þyrlu á vettvang. Hætt var við þyrluna vegna veðurs og þegar í ljós kom að mennirnir væru komnir út úr bílunum sem festust í vök var hluti björgunarsveitarmannanna sendur til baka.