Björgunarsveitir voru kallaðar út seint í gærkvöld og í morgun vegna óveðurs. Engin útköll bárust í nótt en sveitirnar hafa sinnt útköllum á Bíldudal, Siglufirði, Suðureyri, Þingeyri og Grundafirði.
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að rétt fyrir miðnætti losnaði flotbryggja á Bíldudal og svalahurð fauk upp á Siglufirði. Björgunarsveitarfólk tryggði flotbryggjuna og festi svalahurðina og lokaði gatinu.
Í morgun hafa björgunarsveitir byrgt glugga á íþróttahúsinu á Suðureyri sem brotnað höfðu í veðrinu í nótt, á Þingeyri aðstoðuðu björgunarsveitir við að veiða upp lausamuni sem fokið höfðu í höfnina og björgunarsveit á Grundafirði var kölluð út klukkan 11 þegar þakplötur voru að fjúka af bóndabæ í grenndinni.
Minnt er á að enn er vonskuveður á landinu og vegir víða lokaðir auk þess sem enn eru gular og appelsínugular veðurviðvaranir í gildi.
„Best er fyrir fólk að bíða með ferðalög og sitja af sér veðrið.“