Björgunar­sveitir voru kallaðar út seint í gær­kvöld og í morgun vegna ó­veðurs. Engin út­köll bárust í nótt en sveitirnar hafa sinnt út­köllum á Bíldu­dal, Siglu­firði, Suður­eyri, Þing­eyri og Grunda­firði.

Í til­kynningu frá Lands­björg kemur fram að rétt fyrir mið­nætti losnaði flot­bryggja á Bíldu­dal og svala­hurð fauk upp á Siglu­firði. Björgunar­sveitar­fólk tryggði flot­bryggjuna og festi svala­hurðina og lokaði gatinu.

Í morgun hafa björgunar­sveitir byrgt glugga á í­þrótta­húsinu á Suður­eyri sem brotnað höfðu í veðrinu í nótt, á Þing­eyri aðstoðuðu björgunarsveitir við að veiða upp lausa­muni sem fokið höfðu í höfnina og björgunar­sveit á Grunda­firði var kölluð út klukkan 11 þegar þak­plötur voru að fjúka af bónda­bæ í grenndinni.

Minnt er á að enn er vonsku­veður á landinu og vegir víða lokaðir auk þess sem enn eru gular og appel­sínu­gular veður­við­varanir í gildi.

„Best er fyrir fólk að bíða með ferða­lög og sitja af sér veðrið.“