Fjölskylda fertugs karlmanns sem lést í fyrrasumar ætlar í skaðabótamál vegna andláts hans. Maðurinn heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurnesja tvívegis daginn áður en hann lést.

Maðurinn kvartaði vegna sársauka í brjósti og fór 8. júli í fyrrasumar, bæði síðdegis og um kvöld, á bráðamóttöku HSS.

Tvívegis sendur heim af spítalanum

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kvartaði maðurinn undan „sárum brjóstverk með leiðni upp í háls og doða niður í fótlegg.“ Maðurinn var sendur heim í bæði skiptin án þess að vera sendur í sneiðmyndatöku.

Daginn eftir fannst maðurinn látinn á baðherbergisgólfinu heima hjá sér.

Samkvæmt gögnum úr síma mannsins hringdi hann fimm sinnum á heilsugæsluna daginn sem hann lést. Náði síðasta símtalið í gegn en ekki liggur fyrir hvort hann hafi talað við einhvern.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið svara fulltrúar HSS:

„HSS tjáir sig ekki um mál einstakra skjólstæðinga.“

Fertugur fjölskyldufaðir lést með símann í hendi

Maðurinn var nýorðinn fertugur þegar hann lést. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn, sex og tólf ára. Þau voru ekki á heimilinu er hann lést en komu að honum látnum á baðherbergisgólfinu með farsíma í hendinni.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu krufningar lést maðurinn úr flysjun eða rof á ósæð í brjóstholi. Samkvæmt niðurstöðum íslenskrar rannsóknar, sem birtist í European Journal of Cardiothoracic Surgery árið 2016 og náði til 152 sjúklinga, er rof á ósæð mjög hættulegt. 18 prósent sjúklinga létust áður en þeir náðu á sjúkrahús. 21 prósent til viðbótar lést innan sólarhrings eftir komu á sjúkrahús. Rannsóknin tók til áranna 1992 til 2013 og sýnir að því fyrr sem sjúklingar eru greindir því betri er útkoman.

Ekki sendur í myndatöku þótt tækið sé til

Til þess að greina ósæðarrof eða flysjun þarf oftast að senda sjúkling í sneiðmyndatöku í CT-skanna.

Í svörum HSS við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að slíkur skanni sé til á HSS.

Í hvorugt skiptið var maðurinn sendur í myndatöku á HSS samkvæmt heimildum. HSS segist ekki tjá sig um mál einstakra skjólstæðinga.

Lögmaður fjölskyldunnar staðfestir að hún hyggist krefjast skaðabóta vegna andláts mannsins.