Bygging smáhýsanna í Gufunesi reynist afar dýr framkvæmd. Kostnaður við hvert hús er nú metinn 33,4 milljónir króna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík gagnrýndu þetta harkalega á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs í gær og hversu langan tíma hefur tekið að fá svör. Fyrirspurnin var send í október.

„Þessi kostnaður er galinn. Það er mjög miður að peningarnir séu ekki nýttir betur í þetta úrræði því þetta málefni er gott,“ segir Björn Gíslason, sem situr í ráðinu ásamt Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur.

Hýsin eru 30 fermetrar að stærð og fermetraverðið því rúmlega 1,1 milljón króna. Til samanburðar er meðalsöluverð íbúða í fjölbýli í Reykjavík 513 þúsund krónur og sérbýlis 423 þúsund samkvæmt Þjóðskrá.

Innkauparáð samþykkti tilboð Yabimo í byggingu 20 hýsa í maí árið 2019, upp á rúmlega 189 milljónir króna og tæplega 60 prósent af 320 milljóna króna kostnaðar­áætlun. Hýsin voru smíðuð í Kraká í Póllandi og flutt samsett til Íslands. Sú vinna hefur nokkurn veginn staðist áætlun, en aukakostnaður er meðal annars vegna jarðvinnu og lóðafrágangs.

Björn segir að ef öðru tilboði hefði verið tekið gæti fermetraverðið slagað í 2 milljónir króna.

Í svari umhverfis- og skipulagssviðs til fulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram að kostnaður við jarð- og lagnavinnu sé 11,8 milljónir á hvert hýsi og lóða- og umhverfisfrágang 5,7 milljónir. Samanlagt um helmingur kostnaðar við hvert hýsi.

Þessi kostnaður er í bréfinu sagður tilkominn vegna lækkunar á hæðarkvóta Gufunesvegar þegar framkvæmdin var hafin. „Þetta gerði að verkum að endurskoða þurfti framkvæmdina og hafði þessi breyting í för með sér kostnaðarauka við að koma smáhýsunum fyrir, meðal annars vegna aðgengis,“ segir í bréfinu. Var lóðin þá stækkuð til suðurs.

Á fund innkauparáðs í gær mætti fulltrúi Innri endurskoðunar vegna hálfs árs dráttar á svörum. Fulltrúar meirihlutans skýrðu tafirnar með álagi vegna faraldursins og að uppsetningu hýsanna fimm hefði ekki verið lokið fyrr en í desember. Björn segir almennu regluna að fyrirspurnum eigi að svara innan fjögurra vikna og lengri tími en það sé liðinn síðan í desember.