Verð á fer­metra í öllum eigna­flokkum á fast­eigna­markaðnum hér á landi hefur lækkað á síðustu vikum sam­kvæmt mæla­borði Deloitte sem byggir á nýjum tölum frá Þjóð­skrá Ís­lands. Þá jókst sala á ein­býlum um allt land á sama tíma sam­kvæmt sömu heimildum, svo og í fjöl­býli á suð­vestur­horninu.

„Vaxta­hækkanir Seðla­bankans eru aug­ljós­lega farnar að bíta,“ segir Ýmir Örn Finn­boga­son, sér­fræðingur við­skipta­greiningar hjá Deloitte, en minnir jafn­framt á að mikil virkni sé samt sem áður á markaðnum. „Salan er líf­leg. Hún er ekki að detta niður þótt vextir hækki,“ segir hann.

Vel á fimmta hundrað í­búðir í fjöl­býli seldust á höfuð­borgar­svæðinu í septem­ber og var meðal­verð á fer­metra 707 þúsund krónur, en það fór hæst í júní í ár, 737 þúsund, og nemur lækkunin fjórum prósentum.

Sama þróun á sér stað í ein­býli á höfuð­borgar­svæðinu. Þar seldust 80 hús í mánuðinum og var meðal­verð á fer­metra 647 þúsund krónur, en var hæst í ágúst, 671 þúsund krónur.

„Fast­eigna­þenslan er að baki, að minnsta kosti um stundar­sakir,“ segir Ýmir Örn. „Segja má að verð­lækkunar­ferlið sem hófst í júní sé orðið við­varandi eftir sam­fellt verð­hækkana­skeið síðustu tvö árin,“ bætir hann við.

Fjölgun er í sölu ein­býla um allt land sam­kvæmt mæla­borði Deloitte, einkan­lega hvað varðar höfuð­borgar­svæðið þar sem 16 prósentum fleiri eignir seldust í septem­ber en í mánuðinum á undan. Sala í­búða í fjöl­býli jókst líka á sama svæði á tíma­bilinu, eða um átta prósent, en dróst hins vegar saman um sjö prósent úti á landi.