Fer­metra­verð á litlum í­búðum á höfuð­borgar­svæðinu braut 800 þúsund króna markið í síðasta mánuði í fyrsta skipti og stendur það nú í rúm­lega 819 þúsundum króna. Hér er um í­búðir að ræða sem eru undir 80 fer­metrum að stærð.

Sam­kvæmt því sem fram kemur í nýrri saman­tekt við­skipta­greiningar Deloitte á þróun hús­næðis­verðs á milli maí og júní í ár er í­búða­markaðurinn svo sannar­lega ekki að hægja á sér.

Þar kemur fram að að meðal­tali hefur orðið 7,5 prósenta hækkun á í­búðar­verði á höfuð­borgar­svæðinu á milli maí og júní, en meðal­verð seldra í­búða er þar nú 70 milljónir króna.

„Maður hefði haldið að það væri að hægjast á spennunni á hús­næðis­markaði, en svo er alls ekki,“ segir Ýmir Örn Finn­boga­son, yfir­maður við­skipta­greiningar hjá Deloitte, „og sér­staka at­hygli vekur hvað litlu í­búðirnar eru að seljast við háu verði. Maður sár­vor­kennir unga fólkinu fyrir vikið,“ segir Ýmir Örn.

Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreiningar hjá Deloitte.
Fréttablaðið/Aðsent

Þá er mikil fjölgun í sölu stærri í­búða á höfuð­borgar­svæðinu, sem eru yfir 120 fer­metrum, en í júní síðast­liðnum seldust ríf­lega 30 prósent fleiri í­búðir í þeim stærðar­flokki en í maí.

Ýmir Örn segir alla vísa í þessum efnum benda í sömu átt. „Kaup­samningum er að fjölga, en 4 prósent fleiri samningar voru gerðir í júní en í maí í vor,“ segir hann og metur það svo að vaxta­hækkanir Seðla­bankans séu greini­lega ekki að bíta, að minnsta kosti ekki enn um sinn.

„Þetta er orðinn mjög erfiður markaður fyrir fyrstu kaup­endur með hækkun vaxta og litlu fram­boði sem ýtir verðinu svona mikið upp,“ bendir Ýmir Örn á og segir á­standið sjást best á því hvað verð­hækkanir hafi verið miklar frá því á síðasta ári.

„Tólf mánaða hækkun í­búða­verðs á höfuð­borgar­svæðinu mælist nú 27 prósent,“ segir Ýmir Örn Finn­boga­son hjá Deliotte.