Odd­ný Björk Daníels­dóttir býr á­­samt eigin­manni sínum Sveini Ágústi Þórs­­syni og fimm ára gamalli dóttur þeirra Heið­nýju Björk á hættu­­svæðinu á Seyðis­­firði.

Fjöl­skyldan hefur ekki farið heim til sín síðan á þriðju­daginn í síðustu viku en Odd­ný kom síðast heim til þeirra á fimmtu­daginn, deginum áður en stóra skriðan hrundi.

Odd­ný var í Ferju­húsinu á Seyðis­firði í dag þegar fjórir ráð­herrar ríkis­stjórnirnar komu til þess að ræða við heima­menn. Hún var að þar að bíða eftir bát til þess að ferja sig að heimilinu sínu en eftir aur­skriðurnar féllu er það eina leiðin til að þess að komst að heimili fjöl­skyldunnar.

„Við höfum ekkert fengið að vita hvort við þurfum að hlaupa inn og út því þetta er á hættu­svæði enn þá. Það er komið í ljós stór sprunga frá skriðunni sem er beint fyrir ofan húsið okkar og jafn­vel ein­hverjar minni sprungur líka,“ sagði Odd­ný við blaða­mann Frétta­blaðsins á Seyðis­firði í dag.

Hún skilur ekki hvernig húsið sitt slapp við að fá skriðuna beint á sér og segir það ekkert annað en heppni.

Hús fjölskyldunnar sést hér til vinstri en með ótrúlegum hætti slapp það við að fá skriðuna á sig.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Ekkert vatn og enginn hiti í húsinu

Mark­mið ferðarinnar með bátnum í dag er að sækja nauð­synja­vörur til þess að taka með sér til Reykja­víkur yfir jólin en hún hafði litla hug­mynd í dag hvernig að­koman yrði.

„Það er ekkert vatn á húsinu og hefur ekki verið síðan skriðan féll. Það verður ekki hægt að gera við lögnina fyrr en það er búið að grafa í gegnum skriðuna en það er raf­magn,“ segir Odd­ný en RA­RIK fór inn í húsið hennar um helgina til þess að setja þar upp raf­magns­ofna og blásara svo það myndi ekki frost­springa.

„Svo förum við bara suður um jólin og komum heim eftir ára­mót og vonandi stendur húsið alla­vega enn þá. Við erum samt ekki að gera okkur vonir um að það verði búið að opna út eftir á næstu vikum,“ segir Odd­ný að lokum.

Í við­tali við Frétta­blaðið á sunnu­daginn sagði Odd­ný frá því að hún upp­lifi sig ekki örugga heima hjá sér á Seyðis­firði en dóttir þeirra hjóna átti það til að leika sér í fjalls­hlíðinni og á bak við Tækni­minja­safnið sem varð fyrir miklum skemmdum í seinni aur­skriðunni.