Mig langar að beina orðum mínum sér­stak­lega til unga fólksins sem er búið að vera spennt mjög lengi að fara í úti­legu og skemmta sér með kunningjum og vinum núna um helgina. Við verðum að láta þetta bíða,“ sagði Víðir Reynis­son hjá al­manna­vörnum á blaða­manna­fundi í dag. Sam­komu­tak­markanir verða hertar á há­degi á morgun, þegar tveggja metra reglan verður tekin upp að nýju og hundrað manna sam­komu­bann sett á.

Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra segir að sótt­varnar­læknir rök­styðji þessa miklu skerðingu á fjölda þeirra sem má koma saman með því að það sé skyn­sam­legt að stíga á­kveðið niður fyrir þá miklu ferða­helgi sem er í vændum svo að veiran dreifi sér ekki víðar í sam­fé­laginu. 39 virk smit eru nú á landinu og hafa þau öll greinst á síðustu dögum.

Að­spurð hvort stjórn­völd mæltu nú aftur gegn því að fólk ferðist um landið, líkt og var gert um páskana segir Svan­dís: „Við erum bara að segja að við skulum vera skyn­söm og hjálpast öll að. Verum al­manna­varnir. Ferðumst innan­húss.“

„Það eru auð­vitað von­brigði þegar maður er búinn að skipu­leggja eitt­hvað og það breytist en það er til mjög mikils að vinna að við náum utan um þetta [út­breiðslu veirunnar] aftur vegna þess að ef við gerum það ekki þá eigum við á hættu enn þá harðari að­gerðir og það viljum við ekki,“ segir ráð­herrann.

„Það eru alltaf von­brigði að þurfa að stíga skref til baka en við erum öll al­manna­varnir og við höfum gert þetta og getum gert þetta aftur.“

Biðja íþróttahreyfingar að fresta mótum

Víðir tók í sama streng og ráð­herrann á fundinum í dag. „Þetta er auð­vitað hund­fúlt en samt að ein­hverju leyti það sem við gátum búist við ,“ sagði hann. „Við erum ekki komin á það að vera með neyðar­á­stand og með sam­eigin­legum að­gerðum ætlum við að koma í veg fyrir að við lendum þar.“

„Við höfum marg­oft sagt það að sumarið 2020 er hið skrýtnasta sumar. Búum til öðru­vísi minningar, verum heima með fjöl­skyldunni, látum lífið halda á­fram og verum góð hvert við annað,“ sagði Víðir þá.

Einnig beindi hann því til í­­þrótta­hreyfinganna að fresta í­­þrótta­­mótum og keppnum í í­­þróttum full­orðinna um eina viku, það er til 10. ágúst. Svan­­dís sagði að þetta væri auð­vitað „frekar beiðni eða ósk heldur en hitt“, sem sagt ekki bein­línis regla. Hinar al­­mennu tak­­markanir eru þó auð­vitað skýrar reglur sem Svan­­dís sam­þykkti að yrðu í gildi fyrir næstu tvær vikur. Staðan yrði þó endur­­­metin dag­­lega.