Tæplega tveir þriðju forsvarsfólks ferðaþjónustufyrirtækja telja að samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar muni styrkjast eða standa í stað á milli ára.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem KPMG gerði meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu undir lok síðasta árs og verður kynnt á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar sem fram fer í dag.

Þá telur mikill meirihluti, eða 77 prósent, að ríkisstjórnin þurfi í ljósi heimsfaraldursins að grípa til enn frekari aðgerða til að styrkja ferðaþjónustuna á Íslandi. Auk svipaðra aðgerða og þegar hefur verið gripið til leggja svarendur áherslu á aukinn stöðugleika.

Nefna svarendur meðal annars fyrirsjáanleika og framtíðarsýn varðandi landamæraeftirlit og sóttvarnir en herðing og tilslökun reglna á víxl hafi fælandi áhrif.

„Stjórnvöld vinna að því að móta frekari efnahagsaðgerðir í tengslum við þessa bylgju farsóttarinnar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra.

Hún segir nauðsynlegt að aðstoða þau fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga sem verða fyrir mestum takmörkunum á sinni starfsemi.

„Mitt ráðuneyti hefur unnið með lykilaðilum að því að móta tillögur sem eiga að koma til móts við starfsemi þeirra. Þannig óskaði ég til dæmis eftir úttekt á stöðu ferðaþjónustunnar sem Ferðamálastofa og KPMG hafa nú kynnt.

Meðal þeirra tillagna sem eru til skoðunar er áframhald á fyrri efnahagsaðgerðum líkt og viðspyrnustyrkjum og fleiri úrræðum. Einnig erum við að líta til þeirra aðgerða sem önnur ríki hafa gripið til,“ segir hún en leggur áherslu á að fjármálakerfið leggi sitt af mörkum líka.

„Horfur ferðaþjónustunnar á Íslandi eru bjartar og ég hlakka til að klára næstu skref og vonandi fer að birta varanlega til,“ segir Lilja.

Þetta er fjórða árið í röð sem könnunin er gerð meðal ferðaþjónustufyrirtækja, líkt og fyrri ár er nýársfundurinn haldinn í samstarfi Samtaka ferðaþjónustunnar, Íslenska ferðaklasans og KPMG.

Málstofan hefst klukkan 9 og fer fram í beinni útsendingu á Face­book-síðum þessara aðila.