Ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi geta nú farið að skipuleggja ferðaþjónustu fyrir ferðamenn með þeim fyrirvörum sem ríkisstjórnin gaf rétt í þessu. Opnað verður fyrir ferðir inn í landið, ef allt gengur eftir og ekkert bakslag verður í kórónuveirufaraldrinum hér, þann 15. júní næstkomandi. Ferðamönnum bjóðast þrjár leiðir við komu inn í landið.
Í fyrsta lagi býðst fólki hin hefðbundna leið, svo að segja; að fara í tveggja vikna sóttkví við komu inn í landið. Einnig verður í boði fyrir ferðamenn að koma inn í landið ef þeir sýna vottorð þess efnis að þeir hafi verið með veiruna og jafnað sig eða einfaldlega ekki með hana. Slíkt vottorð þyrfti að koma frá viðurkenndri heilbrigðisstofnun og að sögn sóttvarnarlæknis gæti það að öllum líkindum ekki verið eldra en fjögurra daga gamalt. Fjögurra daga viðmiðið er að fyrirmynd Austurríkismanna en þetta útfærsluatriði liggur ekki nákvæmt fyrir eins og er.
Í þriðja lagi ætla stjórnvöld að bjóða fólki upp á sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Fólk sem kemur til landsins verður þá skikkað til að hlaða niður smitrakningarappinu. Þegar sýnatöku er lokið fara þeir svo frjálsir ferða sinna um landið, þó með tilmælum um að takmarka samskipti við aðra eins og hægt er þar til niðurstaða sýnisins berst samdægurs.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að aðilar í ferðaþjónustu hérlendis geti byrjað að skipuleggja ferðir eftir þessum reglum, breytist staðan ekki þangað til. „Þetta er vissulega þannig að það er strax opnun á þá aðila sem eru að skipuleggja ferðir, hvort sem er hér innanlands fyrir ferðamenn eða á milli landa,“ segir Svandís. Icelandair gæti því til dæmis farið að fljúga hópum til landsins.
Ráðherrann segir það óútfært hvernig greiðslum fyrir sýnatökurnar yrði háttað. „Þetta mun kosta töluvert óháð því hvort við förum þá leið að láta viðkomandi sem er að koma inn í landið greiða sýnið sjálfur eða hin leiðin sem væri þá að ríkið stæði straum af þessu,“ segir Svandís. „Sá kostnaður yrði allur að liggja fyrir, hvora leiðina sem við færum, áður en við förum af stað.“
Stjórnvöld leggja upp með að veirufræðideild Landspítala annist sýnatökurnar en Svandís segist aðspurð ekki útilokað að skoða til dæmis aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar. Öll útfærsluatriði eru þannig á byrjunarstigi og verður ráðist í að skoða þau strax á morgun. „Við erum algerlega að nema nýjar lendur í þessu. Þetta hefur ekki verið gert áður þannig við getum ekki sótt okkur handbókina um það hvernig á að gera þetta,“ segir ráðherrann.
Grænlendingar og Færeyingar sleppa
Aðspurð segja bæði Svandís og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að nú sé litið svo á að fólk sem hafi jafnað sig á veirusmiti sé ónæmt fyrir veirunni og þurfa þeir því hvorki að fara í sóttkví né sýnatöku heldur einungis að sýna fram á að þeir hafi jafnað sig á veirunni með vottorði.
„Við lítum svo á að þetta fólk geti ekki fengið veiruna aftur og beri hana því ekki með sér,“ segir Þórólfur. „Þannig er staðan í dag og það er náttúrulega mikil umræða um það hvort fólk geti smitast aftug og því um líkt og það eru svona einstaka sögusagnir en í flestum tilvikum hefur það verið borið bara til baka.“ Hann segir þó auðvitað geta verið einhverjar undantekningar á þessu en að allur meginþorri einstaklinga sem hafi sýkst einu sinni sýkist ekki aftur.
Einnig var tilkynnt um það í dag að bæði Færeyjar og Grænland hefðu verið tekin af lista um hááhættusvæði. Allur heimurinn var áður skilgreindur sem slíkt svæði. Því munu áðurnefnd skilyrði um vottorð, sóttkví eða sýnatöku ekki gilda um ferðamenn frá Grænlandi eða Færeyjum sem koma til landsins frekar heldur en Íslendinga sem eru að ferðast milli landshluta.