Ferða­þjónustu­fyrir­tæki á Ís­landi geta nú farið að skipu­leggja ferða­þjónustu fyrir ferða­menn með þeim fyrir­vörum sem ríkis­stjórnin gaf rétt í þessu. Opnað verður fyrir ferðir inn í landið, ef allt gengur eftir og ekkert bak­slag verður í kórónu­veirufar­aldrinum hér, þann 15. júní næst­komandi. Ferða­mönnum bjóðast þrjár leiðir við komu inn í landið.

Í fyrsta lagi býðst fólki hin hefð­bundna leið, svo að segja; að fara í tveggja vikna sótt­kví við komu inn í landið. Einnig verður í boði fyrir ferða­menn að koma inn í landið ef þeir sýna vott­orð þess efnis að þeir hafi verið með veiruna og jafnað sig eða ein­fald­lega ekki með hana. Slíkt vott­orð þyrfti að koma frá viður­kenndri heil­brigðis­stofnun og að sögn sótt­varnar­læknis gæti það að öllum líkindum ekki verið eldra en fjögurra daga gamalt. Fjögurra daga við­miðið er að fyrir­mynd Austur­ríkis­manna en þetta út­færslu­at­riði liggur ekki ná­kvæmt fyrir eins og er.


Í þriðja lagi ætla stjórn­völd að bjóða fólki upp á sýna­töku á Kefla­víkur­flug­velli. Fólk sem kemur til landsins verður þá skikkað til að hlaða niður smitrakningarappinu. Þegar sýna­töku er lokið fara þeir svo frjálsir ferða sinna um landið, þó með til­mælum um að tak­marka sam­skipti við aðra eins og hægt er þar til niður­staða sýnisins berst sam­dægurs.


Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra segir í sam­tali við Frétta­blaðið að aðilar í ferða­þjónustu hér­lendis geti byrjað að skipu­leggja ferðir eftir þessum reglum, breytist staðan ekki þangað til. „Þetta er vissu­lega þannig að það er strax opnun á þá aðila sem eru að skipu­leggja ferðir, hvort sem er hér innan­lands fyrir ferða­menn eða á milli landa,“ segir Svan­dís. Icelandair gæti því til dæmis farið að fljúga hópum til landsins.


Ráð­herrann segir það ó­út­fært hvernig greiðslum fyrir sýna­tökurnar yrði háttað. „Þetta mun kosta tölu­vert óháð því hvort við förum þá leið að láta við­komandi sem er að koma inn í landið greiða sýnið sjálfur eða hin leiðin sem væri þá að ríkið stæði straum af þessu,“ segir Svan­dís. „Sá kostnaður yrði allur að liggja fyrir, hvora leiðina sem við færum, áður en við förum af stað.“


Stjórn­völd leggja upp með að veiru­fræði­deild Land­spítala annist sýna­tökurnar en Svan­dís segist að­spurð ekki úti­lokað að skoða til dæmis að­komu Ís­lenskrar erfða­greiningar. Öll út­færslu­at­riði eru þannig á byrjunar­stigi og verður ráðist í að skoða þau strax á morgun. „Við erum al­ger­lega að nema nýjar lendur í þessu. Þetta hefur ekki verið gert áður þannig við getum ekki sótt okkur hand­bókina um það hvernig á að gera þetta,“ segir ráð­herrann.

Grænlendingar og Færeyingar sleppa

Að­spurð segja bæði Svan­dís og Þór­ólfur Guðna­son sótt­varnar­læknir að nú sé litið svo á að fólk sem hafi jafnað sig á veiru­smiti sé ó­næmt fyrir veirunni og þurfa þeir því hvorki að fara í sótt­kví né sýna­töku heldur einungis að sýna fram á að þeir hafi jafnað sig á veirunni með vott­orði.


„Við lítum svo á að þetta fólk geti ekki fengið veiruna aftur og beri hana því ekki með sér,“ segir Þór­ólfur. „Þannig er staðan í dag og það er náttúru­lega mikil um­ræða um það hvort fólk geti smitast aftug og því um líkt og það eru svona ein­staka sögu­sagnir en í flestum til­vikum hefur það verið borið bara til baka.“ Hann segir þó auð­vitað geta verið ein­hverjar undan­tekningar á þessu en að allur megin­þorri ein­stak­linga sem hafi sýkst einu sinni sýkist ekki aftur.


Einnig var til­kynnt um það í dag að bæði Fær­eyjar og Græn­land hefðu verið tekin af lista um há­á­hættu­svæði. Allur heimurinn var áður skil­greindur sem slíkt svæði. Því munu áður­nefnd skil­yrði um vott­orð, sótt­kví eða sýna­töku ekki gilda um ferða­menn frá Græn­landi eða Fær­eyjum sem koma til landsins frekar heldur en Ís­lendinga sem eru að ferðast milli lands­hluta.