Mjög vel horfir með bókanir í ferðaþjónustu í sumar. Dæmi eru um að gististaðir séu fullbókaðir út sumarið 2023.
Að sögn starfsmanna á Fosshóteli Núpum í Skaftárhreppi er nýtingin á hótelinu að nálgaðist 100 prósent. Staðarhaldarar víða um Suðurland hafa svipaða sögu að segja af bókunarstöðunni. Sum gistihús hafa farið úr núlli vegna Covid upp í fulla nýtingu á undraskömmum tíma. Dæmi eru um gististaði sem eru fullbókaðir út sumarið 2023.

Fréttablaðið ræddi við ferðamenn við Skógafoss í vikunni. Janina frá Finnlandi sagði að henni liði eins og hoppandi kálfi að vori. „Það er stórkostlega stórkostlegt að fá tækifæri til að ferðast á ný,“ sagði Janina og brosti. Hún sagði að íslensk náttúra væri aðdráttarafl, en nefndi einnig félagslegar og menningarlegar ástæður fyrir Íslandsheimsókninni. Ekki síst hefði hún heillast af sögum um álfa og tröll.
„Ég bý úti á landi þannig að Covid hafði kannski ekki eins mikil áhrif á líf mitt og ef ég hefði búið í borg. En auðvitað var lífið einmanalegt í faraldrinum og þess vegna er svo frábært að finna orkuna sem hér er, fólk er miklu opnara núna og spenntara að ferðast,“ sagði Janina.

Alba Sanchez frá Spáni sagðist, eins og Janina, vera í sinni fyrstu Íslandsheimsókn. Hún hefur nánast ekkert ferðast síðustu tvö ár. Þegar ferð tengd störfum hennar kom upp í hendurnar á henni hafi hún fyllst mikilli gleði og ákveðið að lengja ferðalagið og njóta landsins sem ferðamaður.
Spurð hvort kuldi og rigning hefði engin neikvæð áhrif haft á upplifunina af Íslandi hló Alva dátt og sagði að eftir fimm ára búsetu í Bretlandi sætti hún sig við hvaða veður sem er.
„Ég held að gildin hafi breyst eftir Covid, mér finnst ég kunna betur að meta virði ferðalaga. Ég er með mikið þakklæti í hjartanu yfir að fá að ferðast, það er kannski eitthvað sem maður fann ekki eins mikið fyrir áður en Covid skall á,“ sagði Alba.