Ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Luxury þarf að borga 6.386.500 krónur í bætur til konu sem sagt var upp hjá fyrirtækinu eftir að hún hafði gert viðvart um að hún ætti von á barni.

Dómur í málinu féll í Landsrétti í síðustu viku.

Er fyrirtækinu gert að greiða konunni skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar en niðurstaða Landsréttar var að ólöglega hefði verið staðið að uppsögninni þar sem konan var með barni þegar hún átti sér stað.

Upphaflega var konan ráðin til vinnu hjá fyrirtækinu árið 2019 og þá til þriggja mánaða reynslutíma.

Þegar þeim reynslutíma lauk var henni svo tjáð að ekki væri óskað eftir frekara vinnuframlagi og henni því sagt upp.

Greinir á um ástæður uppsagnarinnar

Konan taldi sig hafa réttilega upplýst fyrirtækið um þungun sína en einnig kemur fram í dóminum að óumdeilt sé að starfsmaðurinn hafi verið með barni þegar uppsögnin átti sér stað.

Forsvarsmenn Nordic Luxury halda því fram að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að starfsmaðurinn hafi einfaldlega ekki valdið starfi sínu.

Sú staðreynd kom þó ekki fram í uppsagnarbréfinu en fyrirtækið heldur því fram að ákvörðun um að sleppa þeim upplýsingum hafi verið tekin í samráði við starfsmanninn til þess að skerða ekki möguleika hennar á framtíðarstarfi.

Starfsmaðurinn segir þó að þessar fullyrðingar séu með öllu rangar og að engar athugasemdir hafi verið gerðar við vinnu hennar meðan á reynslutímanum stóð.