Gylfi Þór Þor­steins­son, for­stöðu­maður far­sóttar­húsa Rauða krossins, segir að staðan í far­sóttar­húsi sé þung og ekki sé hægt að taka á móti fleirum. Um 70 manns voru á bið­lista eftir pláss í morgun og segir Gylfi að síðan þá hafi listin einungis lengst.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Gylfi að starfs­menn far­sóttar­hús hafi meðal annars lent í því að fá til sín er­lenda ferða­menn sem greinst hafa já­kvæðir. Þeim hafi nánast verið hent út af hótelum sínum um leið og þeir láta vita að þeir hafi greinst já­kvæðir.

„Það þyngir þetta auð­vitað líka þegar við þurfum að hafa á­hyggjur af fólki sem stendur úti á götu með ferða­töskuna sína. Við beinum þeim til­mælum til hótela að leyfa þá fólkinu að vera inni á her­bergjunum sínum í ein­angrun á meðan við erum að leysa vandann,“ segir hann við Frétta­blaðið.

Gylfi segir ljóst að ekki sé mögu­leiki á að taka alla þá inn í far­sóttar­hús sem hafa óskað eftir því.

„Fólk þarf þá að huga að því hvernig það getur leyst sín mál,“ segir Gylfi og bætir við að ein­staklingar sem eru alla jafna heilsu­hraustir og vilja forða öðrum heimilis­mönnum frá því að lenda í sótt­kví geti ekki komist inn næstu daga. Staðan sé bara þannig þessa stundina.

Að­spurður segir Gylfi að vil­yrði sé fyrir því að opna nýtt hús í janúar en eins og staðan er núna muni það senni­lega breyta litlu.

„Þó ég myndi opna nýtt hótel í dag þá væri það orðið fullt seinni partinn og listinn heldur á­fram að lengjast. Það eitt og sér leysir ekki vandann. Aftur á móti þurfum við að vera enn harðari á því hverjir komast inn,“ segir hann. Alls dvelja 220 nú í far­sóttar­húsum Rauða krossins og segir Gylfi að starfs­fólk hans hafi sloppið býsna vel í far­aldrinum til þessa, meðal annars með til­liti til sótt­kvíar.

„Ég held að það hafi einn starfasmaður hjá okkur smitast á þessum tveimur árum en það var að líkindum utan vinnu. Við höfum verið mjög heppin hvað það varðar. En auð­vitað er bara tíma­spurs­mál hve­nær við lendum í þessu eins og aðrir.“