Er­lendu ferða­mennirnir sem lög­regla þurfti að hafa af­skipti af í gær­kvöldi vegna brots á sótt­kví voru hver um sig sektaðir um 250 þúsund krónur fyrir brot sín en þetta stað­festir Ás­geir Þór Ás­geirs­son, yfir­lög­reglu­þjónn, í sam­tali við RÚV. Lög­regla telur að mennirnir hafi ekki ætlað sér að vera í sótt­kví.

Líkt og greint var frá fyrr í dag voru þrír er­lendir ferða­menn hand­teknir á veitinga­stað í mið­borg Reykja­víkur í gær en ferða­mennirnir voru ný­komnir til landsins og áttu því að vera í sótt­kví. Lög­regla var þá áður búin að hafa af­skipti af ferða­mönnunum vegna brots á sótt­kví og þótti á­stæða til að fylgja því eftir.

Mennirnir eiga flug frá landinu á morgun en að lokinni skýrslu­töku voru mennirnir sendir aftur á sína gisti­staði, að því er kemur fram í frétt RÚV. Þá sagði Ás­geir að mennirnir þyrftu að fara í 14 daga sótt­kví við komuna til heima­lands síns.

Ás­geir segir nokkuð hafa borið á því að ferða­menn ætli sér ekki að virða þær reglur sem eru í gildi hér á landi um sótt­kví en annað slíkt mál kom upp í gær­kvöldi þegar er­lendur ferða­maður sem átti að vera í sótt­kví var að stofna til slags­mála á Lauga­vegi.

Í Face­book færslu í morgun í­trekaði lög­regla mikil­vægi þess að fólk virði sótt­kví en um­tals­verðan við­búnað þarf til að taka á slíkum málum. „Það er graf­alvar­legt mál að brjóta sótt­kví - því með þannig ó­á­byrgri hegðun getur þú stefnt lífi og öryggi annara í hættu. Virðum sótt­kví, það er dauðans al­vara!“