Um áramótin hefst gjaldtaka fyrir ferðamenn sem koma frá löndum utan Schengen- svæðisins. Er það til að greiða fyrir nýtt eftirlits- og landamærakerfi sem nefnist ETIAS.
„Í stuttu máli þá er verið að setja upp, með innleiðingu ETIAS, samskonar feril fyrir þriðjaríkisborgara sem eru undanskildir vegabréfsáritunarskyldu fyrir komu inn á Schengen-svæðið og margir Íslendingar þekkja með ESTA-umsóknarferli fyrir ferð til Bandaríkjanna,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri hjá embætti Ríkislögreglustjóra sem hefur umsjón með innleiðingunni hér á landi.
„Í dag er gert ráð fyrir að umsóknargjald fyrir ETIAS-ferðaheimild sé 7 evrur (um 1.000 krónur), en ákveðnar undanþágur eru fyrir greiðslu þeirra gjalda,“ segir Gunnar. „Gjaldið er svo innheimt rafrænt í kringum umsóknarferlið og er það greitt til Evrópusambandsins.“
Innan Schengen-svæðisins eru öll lönd Evrópusambandsins og EFTA fyrir utan Írland, Kýpur, Króatíu, Rúmeníu og Búlgaríu, en hin fjögur síðastnefndu stefna á inngöngu. Hvorki Færeyjar né Grænland eru í Schengen.
ETIAS hefur verið í bígerð síðan árið 2016 og er ætlað að tryggja betur ytri landamæri svæðisins. Fólk sækir um sérstaka ferðaheimild á netinu sem gildir í þrjú ár þar sem fólk þarf að gefa upp ýmsar bakgrunnsupplýsingar, svo sem sakavottorð og viðveru á átakasvæðum. Fái viðkomandi höfnun er honum ekki hleypt inn á svæðið en getur áfrýjað ákvörðuninni.