Um ára­mótin hefst gjald­taka fyrir ferða­menn sem koma frá löndum utan Schen­gen- svæðisins. Er það til að greiða fyrir nýtt eftir­lits- og landa­mæra­kerfi sem nefnist ETIAS.

„Í stuttu máli þá er verið að setja upp, með inn­leiðingu ETIAS, sams­konar feril fyrir þriðja­ríkis­borgara sem eru undan­skildir vega­bréfs­á­ritunar­skyldu fyrir komu inn á Schen­gen-svæðið og margir Ís­lendingar þekkja með ESTA-um­sóknar­ferli fyrir ferð til Banda­ríkjanna,“ segir Gunnar Hörður Garðars­son, sam­skipta­stjóri hjá em­bætti Ríkis­lög­reglu­stjóra sem hefur um­sjón með inn­leiðingunni hér á landi.

„Í dag er gert ráð fyrir að um­sóknar­gjald fyrir ETIAS-ferða­heimild sé 7 evrur (um 1.000 krónur), en á­kveðnar undan­þágur eru fyrir greiðslu þeirra gjalda,“ segir Gunnar. „Gjaldið er svo inn­heimt raf­rænt í kringum um­sóknar­ferlið og er það greitt til Evrópu­sam­bandsins.“

Innan Schen­gen-svæðisins eru öll lönd Evrópu­sam­bandsins og EFTA fyrir utan Ír­land, Kýpur, Króatíu, Rúmeníu og Búlgaríu, en hin fjögur síðast­nefndu stefna á inn­göngu. Hvorki Fær­eyjar né Græn­land eru í Schen­gen.

ETIAS hefur verið í bí­gerð síðan árið 2016 og er ætlað að tryggja betur ytri landa­mæri svæðisins. Fólk sækir um sér­staka ferða­heimild á netinu sem gildir í þrjú ár þar sem fólk þarf að gefa upp ýmsar bak­grunns­upp­lýsingar, svo sem saka­vott­orð og við­veru á á­taka­svæðum. Fái við­komandi höfnun er honum ekki hleypt inn á svæðið en getur á­frýjað á­kvörðuninni.