„Þetta er eitthvað sem allir kannast við, að ferðamenn reyni að komast undan því að fara í sturtu,“ segir Karen Erlingsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Sundlaugarinnar á Egilsstöðum.

Undir orð Karenar taka Brá Guðmundsdóttir, hjá Laugardalslaug, Elín H. Gísladóttir, hjá Sundlaug Akureyrar, og Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, hjá Vök Baths.

Þær segja allar að ekki séu sérstök viðurlög við því að fara ekki í sturtu án sundfata áður en farið er í laugina, en reynt sé eftir fremsta megni að sporna við því.

„Þetta er vesen og hefur alltaf verið vesen,“ segir Aðalheiður. „En við gerum ýmislegt til að sporna gegn þessu, höfum til dæmis verið inni í klefunum á mesta háannatíma,“ bætir hún við.

Þá fá gestir í Vök sem bóka fyrir fram sent myndband í tölvupósti sólarhring áður en þeir mæta í laugina þar sem farið er yfir reglurnar á staðnum, þar með talið það að allir skuli fara í sturtu.

Aðalheiður segir spéhræðsluna alltaf hafa verið vesen.

Í Sundlaug Egilsstaða og á Akureyri eru allir erlendir gestir spurðir að því í afgreiðslunni hvort þeir hafi farið áður í sund og þeim kynntar reglurnar. Það er einnig gert í Laugardalslauginni en þar fá að auki þeir gestir sem ekki hafa farið í sund áður útprentaðan bækling þar sem farið er yfir reglurnar á ensku.

„Það sleppur alltaf einhver í gegn og það er alltaf einhver sem vill ekki fara eftir reglum en það á líka við um Íslendinga,“ segir Brá.

Elín, Karen og Brá eru sammála um að ekkert sé að óttast þó einn og einn fari óbaðaður í laugina. Klórmagn laugarinnar aukist í takt við óhreinindi hennar.

„Við notum það líka til að fá fólk til að sturta sig, segjum því að því fleiri sem geri það ekki því meiri klór verði í vatninu,“ segir Karen.

Í Vök er málum öðruvísi háttað því þar er ekki klór í vatninu heldur sístreymi.

„Við meinum fólki ekki aðgang ofan í vatnið ef það fer ekki í sturtu en það hlýða langflestir þegar þeim er bent á reglurnar. Íslendingar eru líka mjög duglegir að láta okkur vita ef einhver fer ekki eftir þeim,“ segir Aðalheiður.

„Svo fara flestir í sturtu en spurningin er alltaf hvort fólk þvoi sér almennilega eða fari úr sundfötunum, en við erum líka með klefa þar sem fólk getur dregið fyrir og við verðum bara að treysta því að fólk fari úr,“ segir Elín

„Þetta er misjafnt eftir þjóðernum en flestir eiga það sameiginlegt að spéhræðslan er ástæðan fyrir því að fólk forðast að baða sig nakið,“ bætir Elín við.