Rétt fyrir hádegi í dag barst Neyðarlínu tilkynning frá göngumönnum sem voru örmagna en þeir voru staddir á Sprengisandsleið.
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að mennirnir hafi verið á göngu í viku og voru orðnir kaldir og hraktir eftir „íslenska suddann“ en undanfarna daga hefur rignt á hálendinu, og þar rignir enn.
„Það hefur ekki verið hingað til mikið að gera, hálendið er að opna viku seinna en vanalega og það má búast við því að verkefnum þar muni fjölga í kjölfarið,“ segir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að hálendisvaktin sé komin af stað í Landmannalaugum og að hún muni dreifa sér næstu daga víða um hálendið.
„Það er þá aukið viðbragð á hálendinu þegar ferðamenn og göngufólk fer að lenda í vandræðum. Það má búast við því að svona útköllum fari að fjölga,“ segir Davíð.
Hann segir þó aðstæður hafa verið sérstaklega erfiðar undanfarna daga en eins og greint hefur verið frá þá hefur verið óvenjukalt á norðanverðu landinu og á hálendi auk þess sem það hefur verið töluverð úrkoma síðustu daga.
„Það er það sem kom þessu fólki í bobba. Þetta eru erlendir ferðamenn og það eru ekki allir vanir roki og láréttu íslensku rigningunni. Það kunna ekki allir á hana og vanmeta aðstæður,“ segir Davíð og að eftir slíka vosbúð í nokkra daga sé fólk bara búið á því.
Hann segir að ferðamennirnir hafi ekki verið slasaðir en að hálendisvaktin hafi farið með þau í Landmannalaugar þar sem átti að sinna þeim betur.

Erill hjá björgunarsveitum í dag
Björgun ferðamannanna er þó ekki eina útkallið sem björgunarsveitir hafa sinnt í dag. Í pósti frá Landsbjörg kemur einnig fram að snemma í morgun hafi björgunarskipið Gísli Jóns verið kallað út frá Ísafirði vegna vélarvana strandveiðibáts. Báturinn var staddur 10 sjómílur vestur af Barða milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Björgunarskipið sótti hann og tók í tog til Bolungarvíkur.
Klukkan var hálf tvö var björgunarbáturinn Sjöfn í Reykjavík einnig kallaður út vegna vélarvana báts. Að þessu sinni var um að ræða skemmtibát sem varð vélarvana suður af Viðey, hann var tekin í tog og dregin til hafnar. Engan sakaði um borð.
Stuttu síðar var björgunarsveit frá Héraði kölluð út til aðstoðar eftir að maður hrasaði við Hengifoss.