Mikil aukning hefur orðið á erlendri kortaveltu hérlendis síðan í mars í takt við fjölgun ferðamanna. Vísbendingar eru um að ferðamenn eyði nú meiri fé er þeir dvelja á Íslandi en var áður en COVID-19 faraldurinn skall á. Erlend kortavelta er nú um 30 prósent af því sem hún var á sama tíma árið 2019 en komufarþegar eru aðeins um níu prósent af þeim fjölda sem sótti Ísland heim á sama tíma árið 2019.
Komuflugum til Keflavíkur hefur fjölgað mikið það sem af er mánuði og flugfélögum sem hingað fljúga einnig fjölgað. Flugum milli Bandaríkjanna og Íslands hefur aukist og er flogið hingað daglega frá nokkrum áfangastöðum vestanhafs.
Útlit er fyrir að nýting hótela verði þrefalt meiri út árið en á sama tíma í fyrra. Útlit er fyrir um 30 prósent nýtingu frá og með maí en í fyrra var hún tæp tíu prósent á sama tímabili, miðað við stöðu bókana.
Veltan nálgast hraðar fyrri hæðir en fjöldi ferðamanna sem gefur til kynna að neysla hvers ferðamanns sé meiri nú en árið 2019 að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins. Ekki liggur fyrir hvort ástæðan sé að ferðamenn dvelja nú lengur á landinu eða hvort það sé breytt samsetning þeirra. Í síðustu viku voru Bandaríkjamenn 35 prósent komufarþega en voru 23 prósent árið 2019.
Bandarískir ferðamenn eyða að jafnaði hærri upphæðum hér á landi en aðrir, dvelja lengur og kaupa meiri afþreyingu.Árið 2019 varði ferðamaður frá Bandaríkjunum að meðaltali 225 þúsund krónum á meðan dvölin stóð yfir og aðeins ferðamenn frá Sviss eyddu meira fé hér á því ári. Bretar voru í fjórða sæti yfir þá ferðamenn sem eyddu mestu og verði hlutdeild ferðamanna frá Bandaríkjunum og Bretlandi hærri í ár en á undanförnum árum má teljast líklegt að meðaleyðsla hvers ferðamanns verði meiri en í fyrri ár.