Þrír starfsmenn Ferðamálastofu hafa sent formlega kvörtun vegna Ferðamálastjóra, þar sem hann er sakaður um einelti og ofbeldi. Ferðamálastjóri vísar ásökununum á bug, en segist ekki vilja tjá sig efnislega um málið sökum trúnaðarskyldu. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Í kjölfar ásakananna óskaði Menningar- og viðskiptaráðuneytið eftir úttekt á stjórnarháttum Skarphéðins Bergs Steinarssonar, ferðamálastjóra, og var ráðgjafarfyrirtækið Officium fengið í verkið.
Fréttastofa RÚV hefur hluta úttektarinnar undir höndum, þar sem Skarphéðinn er borinn þungum sökum.
Meðal þess sem hann er sakaður um er að taka geðþóttaákvarðanir, fara ekki eftir stjórnsýslulögum og tala með fyrirlitningu um opinbera starfsmenn og virðast líta niður á þá. Þá stundi hann stjórnunarhætti sem virðast valda fólki vanlíðan, kvíða og ótta í starfi og starfsfólk þori ekki að tala gegn honum. Auk þess er honum lýst sem „drottnara“ og „hrokafullum besservisser.“
Samkvæmt úttektinni þarf ferðamálastjóri að leita sér stjórnendahandleiðslu til að vinna að því að breyta stjórnunarstíl sínum.
Í svari Viðskipta- og menningarráðuneytisins til fréttastofu RÚV segir að málinu sé ólokið, en unnið sé að koma tillögum ráðgjafans í framkvæmd. Þó sé ekki lagt til að Skarphéðni verði vikið úr starfi né veitt áminning vegna málsins.