Þrír starfs­menn Ferða­mála­stofu hafa sent form­lega kvörtun vegna Ferða­mála­stjóra, þar sem hann er sakaður um ein­elti og of­beldi. Ferða­mála­stjóri vísar á­sökununum á bug, en segist ekki vilja tjá sig efnis­lega um málið sökum trúnaðar­skyldu. Þetta kom fram í kvöld­fréttum RÚV.

Í kjöl­far á­sakananna óskaði Menningar- og viðskiptaráðu­neytið eftir út­tekt á stjórnar­háttum Skarp­héðins Bergs Steinars­sonar, ferða­mála­stjóra, og var ráð­gjafar­fyrir­tækið Officium fengið í verkið.

Frétta­stofa RÚV hefur hluta út­tektarinnar undir höndum, þar sem Skarp­héðinn er borinn þungum sökum.

Meðal þess sem hann er sakaður um er að taka geð­þótta­á­kvarðanir, fara ekki eftir stjórn­sýslu­lögum og tala með fyrir­litningu um opin­bera starfs­menn og virðast líta niður á þá. Þá stundi hann stjórnunar­hætti sem virðast valda fólki van­líðan, kvíða og ótta í starfi og starfs­fólk þori ekki að tala gegn honum. Auk þess er honum lýst sem „drottnara“ og „hroka­fullum besservisser.“

Sam­kvæmt út­tektinni þarf ferða­mála­stjóri að leita sér stjórn­enda­hand­leiðslu til að vinna að því að breyta stjórnunar­stíl sínum.

Í svari Við­skipta- og menningar­ráðu­neytisins til frétta­stofu RÚV segir að málinu sé ó­lokið, en unnið sé að koma til­lögum ráð­gjafans í fram­kvæmd. Þó sé ekki lagt til að Skarp­héðni verði vikið úr starfi né veitt á­minning vegna málsins.