Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra var gestur Sigmundar Ernis í Fréttavakt Hringbrautar í gær. Þórdís ræddi samkomutakmarkanir og sóttvarnaraðgerðir sem hún sagði að hafi átt til að ganga of langt.

„Mér hefur alveg stundum fundist við full lengi að aflétta og mér hefur fundist við hafa tekið svolítinn snúning frá að tala um að fletja út kúrfu og halda stjórn, yfir í að stefna að veirufríu landi sem er útópía,“ sagði Þórdís.

Ákveðnir samflokksmenn hennar hafa gagnrýnt aðgerði stjórnvalda en Þórdís segir að slíkt sé til marks um heilbrigða umræðu innan stjórnmálaflokks.

„Ég skil gagnrýnisraddirnar mjög vel heilt yfir, þó gagnrýnin snúi stundum að mér sjálfri. Mér finnst það bara vera heilbrigðismerki að vera í svona stjórnmálaflokki sem spyr spurninga,“ sagði Þórdís.

Að gefa upp borgararéttindi

Þórdís hafði orð á því að mikilvægt væri að huga að því að í nafni sóttvarna hafa landsmenn gefið upp réttindi sem áður voru talin sjálfsögð. Þessu mætti ekki gleyma í allri umræðunni um aðgerðir til að stemma stigu við COVID heimsfaraldrinum.

„Við erum með grundvallar borgararéttinda fólks sem við, og fólk almennt, erum tilbúin að afhenda í svona ástandi og það er ofboðslega viðkvæmt og ákvaðalega vandmeðfarið.“

Sjáið allt viðtalið við ferðamálaráðherra hér fyrir ofan.

Ekki missa af næstu Fréttavakt sem verður sýnd í kvöld klukkan 18:30 á Hringbraut og Fréttablaðið.is