Ferðamaðurinn sem leitað var á Mælifellssandi við Fjallabak fannst heill á húfi um miðnætti í gær, um 4,5 kílómetrum frá upphaflegri staðsetningu.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingarfulltrúa Landsbjargar var maðurinn kaldur og blautur, og komu björgunarsveitamenn honum í hlýjan fatnað áður en þyrla

Landhelgisgæslunnar kom honum til aðhlynningar í Reykjavík.

Björgunarsveitirnar voru kallaðar út um klukkan fimm síðdegis í gær, eftir að boð barst frá neyðarsendi norðaustur af Mýrdalsjökli. Á þriðja hundrað björgunarsveitarmanna tóku

þátt í leitinni, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu.

Þá segir að aðstæður við leitina hafi verið erfiðar, þar sem mikill snjór og krapi hafi verið á hálendinu.

„Kallaðar voru út sveitir frá suðurlandi, suðvesturlandi og vesturlandi með snjóbíla, breytta jeppa, vélsleða og leitarhunda. Í neyðarboðunum barst staðsetning sem var ekki endilega nákvæm og því var leitarsvæðið í upphafi nokkuð stórt.

Sótt var að svæðinu úr nokkrum áttum og voru fyrstu hópar komnir á vettvang um klukkan átta og leit hófst. Mjög fljótt fjölgaði leitarmönnum og voru hátt í tvö hundruð menn komnir á vettvang þegar maðurinn fannst klukkan 23:40 um 4,5 kílómetra frá upphaflegri staðsetningu.

Allir björgunarmenn voru komnir til síns heima klukkan fimm í nótt,“ segir í tilkynningunni.