Hann var heldur vand­ræða­legur ferða­maðurinn sem tá­braut 200 ára gamla styttu á ítölsku lista­safni á dögunum. Með­fylgjandi mynd­band hefur vakið tals­verða at­hygli og það ekki að á­stæðu­lausu.

Á mynd­bandinu má sjá þegar maðurinn kemur sér fyrir í býsna þægi­legri stellingu við hlið styttunnar sem er af Pauline Bóna­parte, systur Napóleons Bóna­parte. Þetta lagði maðurinn á sig svo eigin­kona hans gæti tekið af honum skondna mynd.

Ekki vildi betur til en svo að maðurinn braut þrjár tær af styttunni þegar hann settist á hana. Styttan er eftir högg­mynda­lista­manninn Antonio Ca­nova og er hún frá árinu 1804.

Maðurinn þóttist ekki taka eftir neinu þegar hann stóð upp en var þó aug­ljós­lega nokkuð vand­ræða­legur. Skemmdirnar komu ekki í ljós fyrr en að hjónin, ferða­menn frá Austur­ríki, voru farin út af safninu.

Í frétt CNN kemur fram að lög­reglu hafi tekist að hafa upp á manninum í gegnum smitrakningar­for­rit sem ferða­mönnum er skylt að sækja. Ó­víst er hvort og þá með hvaða hætti manninum verður refsað en hann er sagður hafa boðist til að borga fyrir lag­færingar á verkinu.