Ferðamaður storkaði örlögunum þegar hann óð út í Skógá við brún Skógafoss fyrir nokkru. Bandarísk kona að nafni Nora McMahon birti myndirnar í gær inn á Iceland Q&A, Facebook hóp fyrir ferðamenn og ferðaþjónustu.

Skógafoss er 60 metra hár og 25 metra breiður. Fossinn er friðlýstur og telst sem náttúruvætti. Skógafoss er gríðarlega kraftmikill og er talinn meðal fegurstu fossa landsins.

„Hvað sem þú gerir þegar þú heimsækir Ísland – ekki vera þessi fáviti. Ég hélt að ég myndi verða vitni að dauða þessa narsissíska manns bara svo fólk myndi líka „læka“ við Instagram myndina.

Ég hafði samband við lögreglu sem ætluðu að hitta hann fyrir neðan fossinn,“ skrifar Norah McMahon. Ekki hefur fengist staðfest hver maðurinn sé en að öllum líkindum er um ferðamann að ræða. Konan sem birti myndirnar þekkir ekki til mannsins.

Nora segist hafa haft samband við lögreglu sem hafi beðið eftir honum fyrir neðan fossinn. Fréttablaðið hafði samband við Lögregluna á Suðurlandi sem hefur ekki getað staðfest þá frásögn.

Myndirnar hafa fengið gríðarleg viðbrögð á samfélagsmiðlum.

Árni Tryggvason endurbirti myndirnar inn á Bakland ferðaþjónustunnar.

„Svona menn á að handtaka, sekta og vísa úr landi. Eru svo hættulegt fordæmi sem getur eyðilagt orðspor Íslands meðal væntsnlegra ferðamanna,“ skrifar Hannes Þorsteinsson við myndina.

Ingimundur Stefánsson veltir fyrir sér hvort maðurinn væri á höttunum eftir gullkistu Þrasa Þórólfssonnar, landnámsmanns.

„Það er langt gengið til að ná af sér flottri mynd. Skyldi þetta vera afkomandi Þrasa Þórólfssonar á Þrasastöðum að leita gullkistilsins bak fossins?“

Ása Björk Snorradóttir segist minnast þess þegar tvær kvígur féllu niður Skógafoss.

„Fyrir nokkrum árum kom ég að Skógafossi og þar var björgunarsveitarfólk að draga tvær kvígur undan fossinum! Þær lifðu ekki fallið af,“ skrifar Ásta við myndina.

Uppfært:

Mbl.is greinir frá því að að maðurinn hafi verið í hópi fimm ungra erlendra ferðamanna. Hinir hafi ekki farið út á brún­ina líkt og þessi en fjór­ir þeirra hafi þó farið und­ir foss­inn þegar niður var komið. Örlyg­ur Örn Örlygs­son, bíl­stjóri hjá Tra­vice, var stadd­ur við Skógafoss og ræddi hann við manninn.

„Þegar þeir komu und­an foss­in­um gaf ég mig á tal við hann og sagði að hann ætti nú aðeins að hugsa sinn gang því hann gæti drepið sig á þessu, þetta væri það hættu­legt. Þá sagði hann að það skipti ekki máli, lífið væri bara áhætta,“ seg­ir Örlyg­ur í samtali við mbl.