Ferðamaður sem kom til landsins frá Vínarborg í Austurríki í gær greindist með virkt smit eftir mótefnamælingu.

Maðurinn ferðaðist til Íslands með flugfélaginu Wizz Air í gær.

Maðurinn sem er frá Albaníu var einn á ferðalagi og fylgdi fyrirmælum yfirvalda við komuna til landsins og hélt fjarlægð.

Hann dvelur nú í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg þar sem hann verður í tveggja vikna einangrun.

Smitrakningateymið hefur óskað eftir því að fá upplýsingar frá Wizz Air varðandi þá farþega sem sátu í kringum hann og þurfa nú að fara í sóttkví.

Vegna þess að maðurinn fylgdi öllum reglum er smitrakningin í kringum hann einföld.

Í gær greindust alls fimm smit á landinu. Tvö sýni greindust jákvæð við landamæraskimun í gær en þá greindust þrjú smit innanlands. Virk smit á landinu eru nú þrettán.