Öll tjaldsvæði í sveitarfélagi Norðurþings eru þétt skipuð vegna fjöldatakmarkana og verið er að vísa fólki frá tjaldsvæðinu í Húsavík.

„Það sama gildir um flest önnur tjaldsvæði í nágrenninu eftir því sem heyrst hefur,“ segir á vefsíðu Norðurþings um þann mikla fjölda ferðalanga sem eru nú í sveitafélaginu.

Sólþyrstir þyrpast norður

Miklu blíðviðri er spáð á norðausturhluta landsins um helgina og streyma sólþyrstir ferðamenn nú á svæðið. „Sveitarfélagið iðar af mannlífi,“ segir í tilkynningu sveitarfélagsins.

Þeim tilmælum er beint til ferðalanga að kanna aðra möguleika en gistingu á tjaldsvæðum þar sem að ekkert er laust á þeim í augnablikinu. „Fjöldamörg gistiheimili og hótel eru á í Norðurþingi og nágrenni sem er tilvalið að nýta sér nú næstu daga.“