Sama hvert ferðinni er heitið má búast við því á ferðalagi læri fólk eitthvað nýtt. Hvort sem það er menning ólíkra staða, ný tungumál, að smakka nýjan mat, sjá fjörð sem við höfum ekki séð áður eða að sjá nýja fuglategund, allt þetta víkkar sjóndeildarhring fólks.
Ágústínus af Hippó sagði eitt sinn að ef heimurinn væri eins bók, hefðuð þeir sem ekki hefðu ferðast einungis lesið eina blaðsíðu bókarinnar. Ferðalög, bæði innan og utan landsteinanna, gefa okkur færi á að kynnast nýju fólki og menningu og sjá þannig heiminn í stærra samhengi.

Ferðalög auka hamingju

Flestir eru hamingjusamari þegar þeir eru á ferðalagi en í venjubundnu lífi þar sem skóli, vinna og almennt heimilislíf á hug manns allan. En undirbúningur ferðalags getur einnig aukið hamingju og sýna rannsóknir fram á að eftirvæntingin sem fylgir því að skipuleggja og undirbúa ferðalag veiti fólki meiri ánægju en veraldlegir hlutir.
Einnig hefur verið sýnt fram á að þeir sem ferðast einu sinni til tvisvar á ári eru ólíklegri til þess að greinast með þunglyndi en þeir sem ferðast á tveggja ára fresti eða sjaldnar.

Ferðalög draga úr streitu

Þrátt fyrir að heimsókn á fjarlægar slóðir geti verið stressandi hefur verið sýnt fram á að ferðalög dragi úr streitu. Rannsókn sem gerð var á fjölda ferðalanga sýndi að 89 prósent þeirra fundu fyrir minni streitu og aukinni slökun strax á fyrstu tveimur dögum ferðalags. Ástæðan er sögð vera nýtt umhverfi og færri skyldur.
Á ferðalögum hafa það flestir að markmiði að njóta og slík hugsun getur minnkað streitu. Það að vera með vinum og fjölskyldu, sinna áhugamálum og njóta lífsins fjarri daglegum skyldum hefur streitu minnkandi áhrif.

Ferðalög hafa áhrif á hjartað

Rannsóknir sýna að ferðalög hafa jákvæð áhrif á hjartað. Hvort sem það er að hlaupa í gegnum flugvöllinn með töskuna, ganga á fjöll eða arka stræti nýrra borga bendi allt til þess að fólk stundi meiri hreyfingu á ferðalögum en í sínu daglega lífi.
Konur sem ferðast einungis á sex ára fresti eða sjaldnar eru átta sinnum líklegri til þess að fá hjartasjúkdóma en þær sem ferðast á tveggja ára fresti.
Karlar sem ekki taka frí og ferðast árlega eru þrjátíu prósent líklegri en þeir sem taka frí og ferðast á hverju ári til þess að fá hjartasjúkdóm.