Veginum um Ólafsfjarðarmúla var í dag í fyrsta skipti í vetur lokað eftir að flóð féll við Sauðanes.
Um fyrstu verulegu snjóflóðahættuna í vetur er að ræða að sögn Ólivers Hilmarssonar, sérfræðings í ofanflóðum á Veðurstofunni.
Hættustigi var lýst yfir eftir flóðið og veginum lokað svo enginn komst í gegn. Vegalengdin milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar lengist um ríflega 210 km meðan á lokun stendur. „Það hefur verið mikil ofankoma og töluvert eftir af veðrinu enn,“ segir Óliver.
Að hans sögn er von á betri tíð í þessum efnum. Hann brýnir þá sem ferðast utan vega á Norðurlandi til að fara varlega.
„Þetta er fyrsta snjóflóðaveðrið að segja má í vetur og það sem er sérstakt er áberandi veikleiki í snjónum fyrir norðan. Þar hefur fallið talsvert mikið af flóðum í fjalllendi og full ástæða að hvetja fólk á vélsleðum og aðra sem eru á fjöllum til að fara varlega.“