Nú fer í hönd ein stærsta ferða-, útivistar- og skemmtanahelgi landsins, verslunarmannahelgin. Það sem flestir velta fyrir sér er hvernig muni viðra og svo sýnist sem landið sé blessað þetta árið. Ekki svo ýkja mikil misskiptingin milli landshluta hvað það snertir. Landinn getur farið nær hvert sem er og vonandi njóta flestir til fulls hvort sem þeir eru heima eða að heiman.

Ekki snúast allir viðburðir um að nota áfengi til að skemmta sér, heldur þvert á móti eru mörg mannamót þar sem gleðin er við völd og jafnvel meginmarkmiðið að stunda íþróttir. Þessa helgi fer einmitt fram Unglingalandsmót ungmennafélaga á Höfn og er búist við miklum mannfjölda þangað. Þannig að fjölbreytnin er að vanda við völd og vonandi finnur hver og einn eitthvað við sitt hæfi.

Burtséð frá því hvaða skemmtun verður fyrir valinu er mikilvægt að horfa á nokkra þætti sem má minnast á sérstaklega. Helgin er löng, flestir gista í tjaldi eða einhvers konar formi af tjaldvagni, hjólhýsi eða húsbíl. Því þarf að huga vel að nesti og möguleikanum á að hvílast og nærast. Þegar gleðin stendur sem hæst eru fáir sem huga að svefni og hvíld. Þegar margir koma saman á sama svæði er sjaldan ró og friður til þessa svo það getur þurft ákveðna útsjónarsemi, en ekki gleyma því að hlaða batteríin svo þú endist alla helgina og þurfir ekki marga daga til að ná fyrri styrk í næstkomandi viku.

Ekki síst er mikilvægt að minna alla þá sem ætla sér að finna draumafélagann þessa helgina en þekkja hann eiginlega ekki neitt að nota smokkinn.

Ef þú hyggst drekka ótæpilega eða að minnsta kosti taka verulega þátt í skemmtuninni með áfengi þér við hönd eða jafnvel bara fara þér að engu óðslega, er góð regla að hafa vatnsflösku við höndina og drekka til jafns á móti áfengisdrykkjunni til að draga úr líkum á vökvatapi sem áfengi er alræmt fyrir að valda. Sérstaklega ef einnig er mikill hiti líkt og spáð er víða, þá eykst slíkt tap. Þeir sem drekka meira en góðu hófi gegnir og kasta jafnvel upp eða finna fyrir vondum áhrifum áfengis ættu að passa sérstaklega sölt og vökvabúskap. Það er svo almenn kurteisi að passa upp á náungann, við ættum að bjóða aðstoð í slíkum kringumstæðum eða ef við sjáum að sá hinn sami kann ekki með áfengi að fara og þarfnast hjálpar.

Þá er gott að passa upp á reglulega matarinntöku, þannig bregst líkaminn síður illa við kringumstæðum og orkutap er minna. Auðvitað að borða hollan og næringarríkan mat eins og því verður við komið en það er líklega ekki alls staðar, svo þá er meginreglan að nærast engu að síður reglulega, hvað sem maður nú kann að finna. Þeir sem þjást af ofnæmi ættu að muna að taka með sér ofnæmislyfin því undir berum himni og langt að heiman eru aðstæður verri ef til slæms kasts kemur og getur það skemmt verulega fyrir viðkomandi og jafnvel eyðilagt helgina.

Ekki síst er mikilvægt að minna alla þá sem ætla sér að finna draumafélagann þessa helgina en þekkja hann eiginlega ekki neitt að nota smokkinn. Hann er eina raunverulega vörnin gegn kynsjúkdómi sem við því miður sjáum allt of mikið af hérlendis. Þeir foreldrar sem hafa ekki rætt við börn sín um hinar mörgu hættur sem felast í nautnum kynlífsins ættu að koma því við sem fyrst. En svona án þess að mála skrattann á vegginn þá er gott að minna alla á að ganga hægt og örugglega um gleðinnar dyr, njóta helgarinnar og passa upp á ykkur sjálf og ekki síst náungann. Þannig komum við vonandi öll heil heim og munið að áfengi og akstur fer aldrei saman.