Heimsmeistaramót karla (HM) í knattspyrnu hefst í Katar þann 20. nóvember næstkomandi eða eftir 22 daga. Árið 2010 vann Katar kosningu meðal meðlima framkvæmdastjórnar FIFA og var þá ákveðið að mótið árið 2022 færi fram í landinu. Sama dag og Katar vann kosninguna var tilkynnt að árið 2018 færi HM fram í Rússlandi.

Sú ákvörðun var strax gagnrýnd og af stað fóru sögur um mútuþægni meðlima framkvæmdastjórnarinnar. Ákvörðunin um að halda HM í Rússlandi var rannsökuð og sannað var hvort menn hefðu þegið mútur. Ekki hefur tekist að sanna mútuþægni í tengslum við ákvörðunina um að HM í ár fari fram í Katar.

Gagnrýnisraddir hafa einnig verið uppi um framkvæmd og undirbúning mótsins en HM í Katar verður það dýrasta í sögunni og er sagt kosta allt að 30 þúsund milljörðum króna. Sé það rétt nemur það fjórföldum samanlögðum kostnaði við öll heimsmeistaramótin hingað til, 21 talsins. Dýrasta mótið fram að þessu var HM í Brasilíu árið 2014, en það kostaði tvö þúsund milljarða.

Átta stórir leikvangar hafa verið byggðir í Katar fyrir mótið. Gagnrýnt hefur verið að þegar mótinu lýkur er áformað að jafna þá flesta við jörðu þar sem ekki eru mikil not fyrir þá í landinu. En að jafnaði mæta um 600 áhorfendur á fótboltaleiki í katörsku úrvalsdeildinni. Sex vallanna taka á bilinu 40 til 45 þúsund manns í sæti, einn tekur 60 þúsund og sá stærsti rúmar 80 þúsund manns.

Íbúafjöldi í Katar hefur margfaldast á undanförnum áratug og fjölgunina má að mestu rekja til farandverkamanna sem komið hafa til landsins til að vinna að uppbyggingu fyrir mótið. Verkamennirnir hafa ekki mikil réttindi í landinu og árið 2019 var áætlað að um 6.500 verkamenn hefðu látið lífið við vinnu tengda HM.

Katar er íslamskt ríki og þar gilda strangar reglur sem þau sem ferðast á mótið ættu að kynna sér fyrir ferðina. Þar er til að mynda bannað að veipa, ógift pör mega ekki deila hótelherbergi og konur mega ekki klæðast bikiníi.