Nýting á hótelherbergjum á fyrstu mánuðum ársins hér á landi er mun meiri en útlit var fyrir undir lok síðasta árs. Áætlað var að hún yrði undir 50 prósentum nú í febrúar, en reyndin er allt önnur og betri, upp undir 70 prósent.

„Það hefur orðið ótrúlega skörp aukning á skammtímabókunum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og metur það svo að yfirstandandi mánuður verði „stórgóður miðað við aðstæður“.

Undir það tekur Kristófer Oli­vers­son, formaður FHG, félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, en ekki sé saman að jafna frá febrúar á síðasta ári „þegar nýtingin mældist varla“.

Jóhannes segir að nýjustu afléttingar á ferðatakmörkunum skipti sköpum fyrir fjörkipp í ferðaþjónustunni, uppsöfnuð ferðaþörf fólks sem ætlaði sér hingað til lands í desember, en varð frá að hverfa vegna aðstæðna, sé nú að skila sér til landsins.

Bókunarstaða hótelanna fyrir sumarmánuði er einnig að batna, sérstaklega seinni hluta sumars og fram á haust. Bæði Jóhannes og Kristófer vonast til að annasömustu mánuðirnir dragi til sín um 70 prósent af ferðamannafjöldanum 2019 – og hingað komi upp undir 600 þúsund manns frá júlí og fram í september, sem er á pari við allt árið í fyrra.

Þeir ítreka báðir að áskoranir greinarinnar séu miklar og felist í manneklu, húsnæðisskorti og fyrirsjáanlegur sé líka hörgull hjá bílaleigum. „Menn eru ekki búnir að jafna sig eftir tveggja ára tekjufall,“ bendir Kristófer á.

„Fjárhagsgreining Ferðamálastofu sýnir,“ segir Jóhannes, „að eiginfjárstaðan getur hæglega þurrkast upp á næstu tveimur árum þegar allur kostnaður fer aftur af stað.“