Nú hefur ferðabann til Bandaríkjanna tekið gildi sem nær til 26 landa Schengen-svæðisins vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Donald Trump skipaði fyrir um að bannið tæki gildi á miðnætti í nótt. Bannið nær ekki til Bretlands en Trump hefur sagt að það geti einnig lent á bannlistanum þar sem fjöldi sýktra þar fer hækkandi.

Icelandair hefur staðfest að flugferðir félagsins verði áfram á áætlun og ætlar flugfélagið að fljúga til og frá Bandaríkjunum þrátt fyrir ferðabannið.

Flugum Icelandair til Orlando, Minneapolis og London, Heathrow í dag hefur þó verið aflýst samkvæmt vef Isavia. Einnig hefur flugum til Grænlands, Osló, Berlínar og Glasgow verið aflýst.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fundar í næstu viku með Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna vegna ferðabannsins.

Landamæralokun tekur einnig gildi í Danmörku á hádegi í dag og verður til 13. apríl. Aðeins dönskum ríkis­borgurum verður heimilað að koma inn í landið.

Tvær áætlunarferðir Icelandair eru þó enn á áætlun í dag og sagði Ásdís Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúi Icelandair, að félaginu hefðu ekki borist upplýsingar frá dönskum yfirvöldum um lokanirnar með formlegum hætti í gær.

Í Noregi verður öllum komufarþegum sem ekki tilheyra Norðurlöndunum vísað til síns heima í tilraunum til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Norsk yfirvöld hvetja ríkisborgara sína til að ferðast ekki.