Eva Lauf­ey Kjaran Her­manns­dóttir, fjölmiðlakona, kokkur og sam­fé­lags­miðla­stjarna, segir að Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir, ferða­mála­ráð­herra, hafi greitt fyrir allt sitt þegar þær, ásamt vinkonum sínum, fóru í ferð á veitinga­stað Icelandair Hot­els og í heilsu­lind um helgina. Stundin greinir frá.

Til­­efnið er frétt Frétta­blaðsins af því að Þór­­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir hafi farið út á lífið með vin­­konum sínum um helgina, þar sem sást að lítið fór fyrir tveggja metra reglunni svo­kallaðri.

Þór­­dís sagði sjálf í kvöld að hún skilji hvernig mynda­takan hafi komið við fólk. Áður hafði Þór­ólfur Guðna­son sótt­varnar­læknir gefið út að hann muni skýra tveggja metra regluna svo­kölluðu á næstu dögum.

Stundin hefur eftir Evu að einungis þrjár vin­konur og hún sjálf hafi fengið að njóta þjónustu Icelandair hotel út á sam­starfið. Þór­dís hafi ekki verið þar á meðal. Eva er með nær 34 þúsund fylgj­endur á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram og voru færslur þetta kvöld merktar sem sam­starf við Icelandair Hot­els.

Spyr blaða­maður Evu hvort það reynist ekki hjálp­legt fyrir kynningar­efni hennar að ráð­herra birtist á myndunum og viður­kennir Eva að svo geti verið.

„Jú, auð­vitað er þetta kannski vand­með­farið og ég hefði átt að hugsa þetta betur,“ segir hún. „Eðli­lega hefði ég átt að hugsa út í það, en ég gerði það ekki. Því er verr og miður. En hún á sína reikninga fyrir þessu og ég mína, þannig að það ætti ekki að vera neitt vafa­mál.“

Bæði Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, tjáðu sig um mál Þór­dísar í dag. Katrín sagði í Kast­ljósi í kvöld að hún teldi eðli­legt að gerðar væru meiri kröfur til ráð­herra hvað varðar ein­stak­lings­bundnar sótt­varnir. Þá sagði Bjarni að vin­konu­ferð Þór­dísar hafi verið ó­heppi­leg.

Tekið er fram í frétt Stundarinnar að Þór­dís hafi ekki svarað fyrir­spurnum miðilsins vegna málsins. Þar er hún meðal annars spurð að því hvort hún hafi fengið fríar veitingar, gjafir eða þjónustu út á sam­starfið og hvort hún telji það sam­ræmast siða­reglum ráð­herra.

Í 4. grein siða­reglna ráð­herra er tekið fram að ráð­herra beri að forðast allt at­hæfi sem lík­legt er til að vekja grum­semdir um að hann not­færi sér stöðu sína í eigin­hags­muna­skyni. Í 3. grein er tekið fram að ráð­herra sé ekki heimilt að hafa einka­not af gæðum starfsins, nema að svo miklu leyti sem lög og reglur leyfa.

Uppfært - 11:30:

Í upprunalegu fréttinni sagði að hádegisverðurinn, eða brönsinn, hafi verið kostaður, það er rangt og er beðist velvirðingar á því. Vinkonurnar snæddu um kvöldið á VOX en í há­deg­inu snæddu þær á Kol þar sem hver og ein ein­asta greiddi fyr­ir sig. Eva Laufey segir að þær myndir sem birtar voru vinkonunum tegist samstarfinu ekki á neinn átt og höfðu þær engu hlutverki að gegna í verkefni hennar fyrir Hilton Reykjavík Nordica.