Ferðamenn sem koma hingað til lands frá Grænlandi eru undanþegnir aðgerðum á landamærunum og þurfa því hvorki að framvísa neikvæðu PCR-prófi né fara í skimun eða sóttkví við komuna til landsins. Þetta kemur fram á vef Embættis landlæknis.

Skilyrði fyrir undanþágunni er að ferðamaðurinn hafi ekki heimsótt land eða svæði sem flokkast sem hættusvæði fjórtán dögum fyrir komu til Íslands, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur fjarlægt Grænland af lista yfir skilgreind áhættusvæði vegna COVID-19.

Þeir ferðamenn sem hafa verið á hættusvæði fjórtán dögum fyrir komu hingað en koma í gegnum Grænland, þurfa að fylgja þeim reglum sem gilda við landamærin. Hér á landi eru öll lönd í heimi skilgreind sem áhættusvæði nema Grænland.

Ekkert smit er á Grænlandi en frá upphafi faraldursins hafa einungis greinst þar 30 tilfelli. Enginn hefur látist vegna COVID-19 þar í landi. Í heiminum öllum höfðu í gær verið staðfest rúmlega 113 milljón tilfelli og yfir 2,5 milljónir manna höfðu látist af völdum sjúkdómsins.