Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um hálf ellefuleytið í morgun um líkamsárás við hótel í 105 Reykjavík en erlendur ferðamaður var sleginn í höfuðið með flösku en þegar lögreglan mætti á vettvang var árásaraðili farinn af vettvangi og stendur rannsókn málsins nú yfir. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar kemur jafnframt fram að lögreglan hafi haft afskipti af fólki í óleyfi í bílastæðahúsi í sama hverfi en um var að ræða par sem afskipti voru höfð af vegna vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Þá var tilkynnt um brotna rúðu í bíl í hverfi 108 en ekki er vitað hver stóð að verki.

Þá var brotist inn í bílskúr í Kópavogi, spenntur upp gluggi og farið inn og verðmætum stolið. Þá var bifreið stöðvuð í bænum um ellefuleytið í morgun en hún var ótryggð og sagðist eigandinn hafa steingleymt að tryggja bílinn og voru skráningarnúmer klippt af henni.