Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði Kristján Þór Júlíusson óhæfan sem sjávarútvegsráðherra í ljósi þess að hann geti ekki, eða neiti að tjá sig um Samherjamálið. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu „skæruliðadeild“ Samherja að umræðuefni á Alþingi og beindu spjótum sínum að ráðherrum og kröfðust svara.

„Hefur hæstvirtur ráðherra áhyggjur af þeirri áróðurs- og rógsherferð sem fyrirtækið hefur rekið að undanförnu gegn fjölmiðlum, félagasamtökum og jafnvel nánum samstarfsmönnum hans á þingi? Telur hæstvirtur ráðherra að Samherji standi við þær skuldbindingar sem fyrirtækið hefur gagnvart samfélaginu eða ætlar hann að ýta eftir því? Ætlar ráðherra að bregðast við og þá hvernig?“ spurði Þórhildur Sunna og svaraði ráðherrann að það væri ekki ásættanlegt að fyrirtæki beiti sér með þessum hætti.

„Að því leyti til get ég tekið undir áhyggjur háttvirts þingmanns af því ef það er að verða lenska að fyrirtæki sem þykir að sér sótt fari að beita sér með þeim hætti sem þar um ræðir. Að öðru leyti hefur þetta mál ekki borið inn á mitt borð. Ég að sjálfsögðu þekki fullt af fólki, eins og ég hef áður nefnt, meðal annars á opnum fundi með háttvirtum þingmanni haustið 2019, þekki fullt af starfsfólki Samherja og hef ekkert nema gott um það að segja. Hef átt við það að alla tíð bara hin bestu samskipti,“ sagði Kristján Þór.

Þórhildur Sunna sneri aftur á Alþingi í dag úr fæðingarorlofi og byrjaði á því að spyrja sjávarútvegsráðherra spjörunum úr vegna nýjustu fregna um Samherja.
Fréttablaðið/Valli

Velti þá Þórhildur Sunna upp spurningum um hæfi ráðherra.

„Finnst hæstvirtum ráðherra virkilega ekkert athugavert við það að hann sitji í þessu embætti á meðan Samherji stundar sínar fordæmalausu árásir á alla sem voga sér að gagnrýna framgöngu fyrirtækisins? Setur það embætti ekki niður að hafa mann sem getur ekki beitt sér, getur ekki tjáð sig með neinum markmiðum hætti um framgöngu fyrirtækisins?“

Ráðherrann gaf lítið fyrir spurningar þingmanns og sagði það ekki fara henni vel að vanda um siðferði annarra þingmanna.

„Þetta er fyrsti og eini þingmaðurinn sem hefur fengið ákúru fyrir það að brjóta þær siðareglur sem Alþingi sjálft hefur sett sér,“ sagði Kristján Þór.