Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala og formaður farsóttanefndar, segir að nú sé að verða tímabært að líta á Covid-19 sem „venjulega flensu“.

„Kórónaveiran mun aldrei hverfa, hún er komin til að vera,“ segir Már. „Bæði ég og Þórólfur og fleiri höfum sagt það að veiran muni vera með okkur og með tímanum verði veikindin mildari og mildari og kannski er það farið að gerast núna.“

Í gærmorgun lágu 24 einstaklingar með Covid-19 á Landspítala, einn þeirra í öndunarvél á gjörgæsludeild. Már segir álagið á spítalanum koma í hrinum. „Núna eru tiltölulega margir veikir hérna en það var ekki þannig fyrir nokkrum dögum. Þegar það koma upp smit hjá hópum sem standa höllum fæti þá sjáum við það,“ segir Már.

Hann segir að veikindi séu misjöfn hjá þeim sem smitast, enn sé það þannig að sumir verði mikið veikir en aðrir ekki. „Þetta snýst alltaf um það að ef þú stendur höllum fæti heilsufarslega þá getur tiltölulega vægur atburður, eins og það að fá kórónaveiru, steypt þér en þetta á líka við um aðrar veirusýkingar og flensur.“

Már segir enn tvímælalaust mikilvægt að fólk fari varlega og hugi að sóttvörnum, hann hefur þó sterka tilfinningu fyrir því að fólk sé rólegra nú en fyrr í faraldrinum. „Það eru náttúrulega bara hagsmunir hvers og eins að fara varlega, þá eru minni líkur á því að fólk smitist. En það að halda að allir fari varlega er bara útópía held ég.“