Íbúi á dvalarheimili fyrir aldraða í Kaliforníu í Bandaríkjunum lést og tveir aðrir íbúar voru fluttir mikið veikir á sjúkrahús eftir að þeir drukku uppþvottalög í staðinn fyrir appelsínusafa. Rannsókn á málinu stendur yfir og hafa nokkrir starfsmenn verið sendir í leyfi.
Í frétt CNN kemur fram að atvikið hafi átt sér stað í Atria Park í San Mateo. Konan sem lést, Gertrude Elizabeth Murison Maxwell, var 93 ára og var ófær um að drekka án aðstoðar.
Forsvarsmenn Atria hafa sent aðstandendum innilegar samúðarkveðjur og hafa heitið því að vera lögreglu innan handar við rannsókn málsins. Lögregla skoðar hvernig það kom til að uppþvottalögurinn komst ofan í glösin.
Dvalarheimilið er í eigu Altria Senior Living sem rekur rúmlega tvö hundruð samskonar heimili í Bandaríkjunum.