Fjármálaráðuneytið hefur keypt umdeildan steyptan grunn á sumarhúsalóð í Þingvallaþjóðgarði á 35 milljónir króna.

Á Valhallarstíg nyrðri 7 við Þingvallavatn er steyptur grunnur að 159 fermetra sumarhúsi sem til stóð að byggja eftir að bústaður sem þar hafði staðið var rifinn. Eftir að steyptur hafði verið upp grunnur stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir 3. október 2008 í kjölfar þess að byggingarstjórinn hafði sagt sig frá verkinu. Ekkert hefur síðan verið gert á staðnum.

Hjónin Bogi Pálsson og Sólveig Lára Magnúsdóttir áttu grunninn sem fyrir um einu og hálfu ári komst í eigu föður Boga, Páls Samúelssonar, eftir að Þingvallanefnd hafnaði því að neyta forkaupsréttar og ganga inn í kauptilboð Páls – upp á 70 milljónir króna – eða helmingi hærri upphæð en ríkið hefur nú greitt. Grunnurinn stendur á leigulóð í eigu ríkisins.

Lögmaður þjóðgarðsins sendi byggingarfulltrúa Uppsveita Árnessýslu erindi í október síðastliðnum og spurðist fyrir um hvort byggingarfulltrúinn gæti ekki beitt ákvæði í lögum um mannvirki vegna Valhallarstígs nyrðri 7.

„Umbjóðandi minn ítrekar að hann telur almenningi stafa hætta af umræddum grunni og einnig er grunnurinn veruleg lýti á þjóðgarðinum og telur umbjóðandi minn eðlilegt að umræddur grunnur verði fjarlægður af lóðinni,“ undirstrikaði lögmaðurinn í næsta bréfi til byggingarfulltrúans í nóvember.

SAXoPicture-075185A0-388245409.jpg

Einar Á.E. Sæmundssen þjóðgarðsvörður

Í desember spurðist Páll Samúelsson fyrir um það hvað gera þyrfti svo hann gæti fengið endurnýjað byggingarleyfi á grunninum. Eignin væri í söluferli og að með byggingarleyfi yrði auðveldara að selja. Þá kveðst Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hafa gripið inn í atburðarásina. Haft hafi verið samband við Pál sem tekið hafi jákvætt í að selja.

„Þau samskipti enduðu á því að við fengum mat frá fasteignasala,“ segir Einar sem kveður þar með hafa verið kominn grundvöll til að ríkið næði til sín eigninni og niðurstaða fengist í erfitt og langdregið mál.

„Þetta er niðurstaða sem byggir á þeim heimildum og samningum sem eru í gildi. Hún þýðir að það mun ekki rísa sumarbústaður þarna. Og þetta er staðfesting á stefnu sem Þingvallanefnd hefur markvisst unnið eftir og lýtur að því að það muni ekki rísa fleiri sumarbústaðir innan þjóðgarðsins,“ segir Einar. Næsta verkefni sé að ákveða hvað verði um steypugrunninn.

„Viljum við nýta þetta mannvirki og breyta í aðstöðusköpun fyrir þjóðgarðinn eða förum við í mat á því að láta fjarlægja það? Í raun sé ég alveg möguleikann á því að geta nýtt þetta,“ segir þjóðgarðsvörður.