„Svona er lífið í Eyjafirði,“ segir Sigrún Björg Aradóttir sem skipulagði ferð í kringum Hrísey um helgina á svokölluðum SUP, eða Stand Up Paddle, brettum. Hópurinn, sem taldi sex manns, fór á fjórum SUP-brettum og tveimur sjókajökum. Hópurinn réri í rólegheitum 16 kílómetra leið í dásamlegu veðri og var tæpa sex klukkutíma í ævintýrum og félagsskap óvæntra gesta.

„Við vorum með virkan fylgjanda alla leið. Það var selur sem fylgdi okkur nánast allan hringinn sem var óvænt ánægja. Svo sáum við stórhveli í fjarska en andarnefjur komu frekar nálægt okkur til að skoða.

Fréttablaðið/Aðsend

Þetta var frábær leið til að sjá eyjuna því Hrísey sést frá öðru sjónarhorni þegar maður er að róa meðfram henni. Allir þessir klettar og dýralífið sem er alveg magnað,“ segir Sigrún.

Hópurinn tók ferjuna yfir um morguninn og heim aftur um kvöldmatarleytið. Hún segir að ferðin hafi verið ákveðin með frekar skömmum fyrirvara. Veðurspáin hljómaði vel og spegilsléttur sjór heillaði hópinn.

Hún segir að dagurinn hafi verið fljótur að líða. „Við vorum ekkert að drífa okkur. Þetta var það sem ég kalla sálarhleðsla. Þarna vorum við bara að njóta. Þetta leið mjög hratt en ég var alveg þreytt eftir þetta. Það var freistandi að róa yfir til baka til Akureyrar en ég er fegin að við tókum ferjuna,“ segir hún og hlær.

„Mér finnst SUP alveg æðislegt og er alveg háð þessu. Ég verð þunglynd ef það líður of langt á milli ferða. Það er ótrúlegur máttur yfir hafinu. Það rennur af manni öll þreyta og maður kemst í algjört núvitundarástand.“

Fréttablaðið/Aðsend

Hún segir að ræðarar á Akureyri séu duglegir að hittast og róa um fjörðinn sem geymi fjölmargar perlur sem sjást ekki frá þjóðveginum. „Við vorum með byrjanda í hópnum sem hafði aldrei gert þetta áður. Edda Gunnarsdóttir var að stiga í fyrsta sinn á SUP-bretti og gerði það svona snilldarlega vel.

Eyjafjörðurinn er alveg magnað svæði og það eru margar faldar perlur sem maður kemst ekkert að nema sjóleiðina. Það er alveg slatti af fólki sem á bretti og er að róa hér á Akureyri enda æðisleg hreyfing og útivera,“ segir Sigrún.

Fréttablaðið/Aðsend