Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra hafnaði því á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær að íslensk stjórnvöld hefðu beitt sér í þágu kjörræðismanns Íslands í Hvíta-Rússlandi.

Fram kom í nýlegri fréttaskýringu Stundarinnar um Alexander Moshenskíj, auðkýfing og kjörræðismann Íslands, að sumir þar í landi teldu að hann hefði notið góðs af sambandi sínu við Ísland og það komið í veg fyrir að hann hefði orðið fyrir refsiaðgerðum vegna tengsla sinna við Alexander Lúkashenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands.

Þórdís Kolbrún sagði íslensk stjórnvöld hafa fengið óljósar ábendingar um að hann myndi verða á lista yfir þá sem beittir yrðu efnahagsþvingunum en stjórnvöld hafi ekkert aðhafst. ■