Einn vinsælasti ferðamannastaður sumarsins er Stuðlagil á Jökuldal á Fljótsdalshéraði. Þó að náttúruperlan hafi verið þarna frá því elstu menn muna þá kom dýrð hennar ekki fyllilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkar voru virkjaðir. Þá lækkaði vatnsborð Jöklu um rúma 7 metra og Stuðlagil blasti við.

Ferðamenn hafa í raun tvo valkosti til þess að virða dýrðina fyrir sér. Annars vegar er að skoða gilið frá bænum Grund þar sem nú er hægt að njóta perlunnar frá sérstökum útsýnispalli sem opnaður var rétt fyrir verslunarmannahelgi. Hinn valmöguleikinn er um 5 kílómetra ganga, aðra leiðina, frá bænum Klausturseli. Sú leið nýtur ekki síst vinsælda því þaðan er hægt að komast ofan í sjálft gilið þegar vatnsrennsli Jöklu leyfir.

Samkvæmt talningu í júlí hafa um 15 þúsund gestir lagt leið sína að bænum Grund eða um 500 gestir á dag að meðaltali. Aðsóknin er þó ekki mjög jöfn. „Íslendingar elta veðrið mjög mikið. Í góðu veðri hópast fólk hingað en í slæmu veðri sér maður meira af erlendum ferðamönnum,“ segir Stefanía Katrín Karlsdóttir, einn landeigandi á Grund.

Ferðamenn hafa stundum hætt sér full nálægt klöppinni í gilinu.
Fréttablaðið/Sunna Karen

Segja má að náttúruperlan hafi fallið í fangið á henni og öðrum landeigendum. „Skyndilega kviknaði áhugi gesta á þessum stað og fjöldi heimsókna jókst hratt. Það varð mikið áreiti um tíma þegar gestir voru að banka upp á og biðja um leyfi til þess að skoða gilið og fá afnot af klósettaðstöðu,“ segir Stefanía.

Varla hafi komið til greina að aðhafast ekki neitt því átroðningurinn varð strax slíkur að landið lá undir skemmdum. „Við fengum því ráðgjöf og höfum unnið þetta út frá því að í framtíðinni muni um 90-100 þúsund manns á ári heimsækja þennan stað. Við fengum svo styrk til þess að byggja upp bílaplan fjarri bænum okkar og til að byggja upp útsýnispall sem mun þurfa lítið viðhald. Við urðum að aðhafast eitthvað til þess að verja landið okkar,“ segir Stefanía.

Gallinn er sá að enn sem komið er fer mikil vinna í skipulagningu svæðisins en engar tekjur verða eftir af komu ferðamannanna. „Við sköffum um 10 hektara lands undir bílastæði og vegi auk þess sem þetta er unnið í áhugamennsku,“ segir Stefanía. Það sé stórt skref að ráðast í dýrar framkvæmdir og það verði ekki gert nema að vel athuguðu máli.

Marteinn Óli Aðalsteinsson, bóndi á Klausturseli, segir að engin formleg talning á gestum hafi farið fram hjá þeim en að hans tilfinning sé sú að gestir séu fleiri í ár en í fyrra. Á dögunum fékk hann styrk til þess að útbúa almennilega göngustíga að náttúruperlunni og ætti það að stytta vegalengdina eitthvað. „Ég er ekkert kominn lengra heldur en það og að setja upp klósettaðstöðu. En þetta er talsverður átroðningur og það er alveg rétt að það eru engar tekjur af þessum ferðamönnum,“ segir Marteinn og hlær þegar hann er spurður hvort það sé ekki örugglega hótel á teikniborðinu.

„Ég kann ekkert að hanna né byggja upp ferðamannastaði. Ég bý bara hérna og reyni að gera hvað ég get meðfram búskapnum.“

Hann segir hins vegar að Vegagerðin þurfi að fara að taka sig á. „Vegurinn hingað inn eftir er orðinn afar lélegur. Hann dugði fyrir þessar nokkru hræður sem búa í sveitinni en núna er hann löngu sprunginn. Það hefur verið rætt um það í talsverðan tíma að bæta úr þessu en ekkert gerist. Það er afar brýnt að hraða því,“ segir Marteinn.