„Síminn hringir bara stans­laust,“ segir Richard Kristins­son, fram­kvæmda­stjóri Mjallar Friggjar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Fyrir­tækið hefur varla haft undan við að fram­leiða hand­spritt enda vilja lands­menn fyrir­byggja smit af völdum CO­VID-19 kórónu­veirunnar.

„Á mánu­daginn var pantað jafn mikið magn og við seldum allt árið 2019,“ segir Richard en eins og sést á þessu er um gríðar­legt magn að ræða.

Em­bætti land­læknis hefur gefið út skýr fyrir­mæli um hvernig sé best að forðast smit. Góð hand­hreinsun er þar mikil­vægasta ráðið og er ó­hætt að segja að Ís­lendingar hafi farið eftir þessu.

„Hand­þvottur með vatni og sápu er æski­legastur ef hendur eru ó­hreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sam­eigin­lega snerti­fleti s.s. hurðar­húna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslu­kortum má hreinsa með hand­spritti,“ segir á vef em­bættis land­læknis.

Richard segir að á mánu­dag hafi Mjöll Frigg tekið á móti pöntunum vegna 30 þúsund stykkja af hand­spritti. „Við héldum að við hefðum selt mikið í febrúar af því að þá seldum við 40 þúsund stykki.“

Richard segir að fram­leiðslan gangi á­gæt­lega og fyrir­tækið hafi sent frá sér allt sem var pantað á mánu­daginn. „Núna erum við í rauninni komnir í aðrar stærðir og erum að fram­leiða í á­fyllingar fyrir heil­brigðis­stofnanir. Það er orðinn fókusinn,“ segir hann en um er að ræða eins lítra og fimm lítra um­búðir.

Richard segir að farið sé að ganga á vara­birgðir og erfiðara sé að fá efni­við í hand­sprittið, etanól til dæmis, að utan. „Við fengum nú ein­hverjar stað­festingu á meira efni í gær en þeir birgjar sem eiga eitt­hvað eru farnir að rukka allt að fjór­falt verð. Hörgullinn er orðinn það mikill í Evrópu.“

Aðrir birgjar og fram­leið­endur segja svipaða sögu og Richard. Guð­mundur Gylfi Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri hjá Tandri hf., segir við Morgun­blaðið í dag að fyrir­tækið hafi aldrei upp­lifað annað eins á þeim 35 árum sem það hefur starfað. Hann segir að mikið álag sé á starfs­fólki við fram­leiðslu á hrein­lætis­vörum, hand­spritti til dæmis.