Í tilefni vígslu Skeljungs á nýrri vetnisstöð Orkunnar við Miklubraut sem fram fór í dag kl. 12.30, afhenti Hyundai á Íslandi við það tækifæri fyrirtækjum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu sex nýja rafknúna vetnisbíla af gerðinni Nexo, sem er flaggskip Hyundai í flokki ört vaxandi flóru vistvænna bíla. Rúm sex ár eru liðin síðan Hyundai hóf fjöldaframleiðslu og sölu á rafknúnum vetnisbílum. Vegferðin hófst í ársbyrjun 2013 þegar rafknúni vetnisbíllinn iX35 kom á markað. Um 500 slíkir bílar eru í notkun í 28 löndum.

666 km drægni

Í samanburði við afl og getu annarra vetnisknúinna rafbíla sem litið hafa dagsins ljós á markaðnum skákar enginn Nexo í því er varðar innra rými, snerpu, kraft eða drægni. Rafmótor Nexo er 120 kW og 163 hestöfl og togar mótorinn allt að 395 Nm. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. er 9,2 sekúndur og hámarkshraðinn 179 km/klst. Vetnisgeymir Nexo er 156,6 lítrar (6,3 kg) og dregur bíllinn allt að 666 km á tankinum samkvæmt mælistaðli WLTP. Það er svipuð drægni og margra bensín- og dísilfólksbíla í umferðinni. Eins og með alla bíla óháð orkugjafa fer nýting eldsneytisins eftir ökulagi, veðuraðstæðum og fleiri þáttum. Nokkrar mínútur tekur að fylla vetnistank Nexo og þar sem bíllinn þolir „kaldstart“ í allt að -30°C er ljóst að Nexo hentar ákaflega vel íslenskum veðuraðstæðum.

Orkumikill rafbíll

Aflrás Nexo er þannig að vetnið gengur í samband við súrefni í efnarafal sem breytir vetninu í rafmagn. Rafallinn streymir orkunni bæði beint til rafmótorsins og á 1,56 KWh rafhlöðu bílsins, sem skilar allt að 40KW orku. Raforkugeta efnarafalsins er allt að 95 KW og þegar rafmótorinn þarf meiri orku sækir hann orkuna til rafhlöðunnar enda getur mótorinn nýtt allt að 120 KW í einu. Nexo losar bara frá sér hreint og drykkjarhæft vatn og hreinna loft en það sem hann tók inn. Því stuðlar Nexo að betri loftgæðum í umhverfi sínu.

Búinn hátæknibúnaði Hyundai

Eins og aðrir rafbílar er Nexo hljóðlátur í akstri þótt hann framleiði raungerð hljóð í öryggisskyni fyrir gangandi vegfarendur. Nexo er nefnilega búinn öllum helstu tækninýjungum Hyundai. Raunar er Nexo fullfær um að aka sjálfur án aðstoðar eins og Hyundai sýndi fram á í 190 km ökuferð fyrir ólympíuleikana í Seoul án þess að ökumaðurinn skipti sér nokkurn tímann af akstrinum. Allir sjálfvirknieiginleikar Nexo eru þó ekki virkir sem stendur enda lagaumgjörðin víðast hvar enn í mótun.

Hyundai leiðir vetnisþróunina

Hyundai Nexo er önnur kynslóð rafknúins vetnisbíls Hyundai á almennum markaði. Fyrri kynslóð var eins og áður segir iX35 sem var fyrsti rafknúni vetnisbíllinn á markaðnum. Um 500 slíkir eru í notkun, m.a. á Íslandi. Það eru fleiri bílar en samanlagður fjöldi vetnisbíla af öðrum tegundum enda hefur Hyundai unnið lengst að þróun tækninnar, eða frá 1998, m.a. í samvinnu við stjórnvöld í S-Kóreu, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Rafknúnir vetnisbílar á Íslandi

Innflutningur og sala á Nexo á Íslandi fer m.a. fram í samstarfi við Íslenska nýorku sem er ásamt Skeljungi og fleirum aðilar að átaki Evrópusambandsins um fjölgun rafknúinna vetnisbíla í umferð. Í tengslum við átakið flutti BL á síðasta ári til landsins tíu iX35-vetnisbíla fyrir endurvígslu vetnisstöðvarinnar við Vesturlandsveg og opnun annarrar stöðvar í Reykjanesbæ. Bílarnir voru seldir Íslenskri nýorku sem endurseldi þá samstarfsaðilum sínum um kynningu á vetni sem ákjósanlegs orkugjafa í vegsamgöngum hér á landi.