Emma Tustin, stjúp­móðir hins sex ára gamla Arthur Labinjo-Hug­hes, hefur verið dæmd í 29 ára fangelsi og faðir hans, Thomas Hug­hes, í 21 árs fangelsi. Þau voru sak­felld fyrir að hafa beitt drenginn skelfi­legu of­beldi með þeim af­leiðingum að hann lést í júní 2020. Independent greinir frá.

Dómur féll í ensku borginni Coventry í dag en málið hefur vakið mikla um­ræðu í Bret­landi síðustu daga. Fyrir dómi kom fram að Arthur hefði verið beittur pyntingum áður en höfuð­högg dró hann til dauða á heimili hans í Soli­hull þann 16. júní 2020.

Arthur var í um­sjón stjúp­móður sinnar daginn ör­laga­ríka en fyrir dómi kom fram að of­beldið gegn honum hafi staðið yfir um langa hríð.

Dómarinn í málinu, Mark Wall, var harð­orður þegar hann kvað upp lífs­tíðar­dóminn yfir Emmu, en dómurinn þýðir að hún verður í fangelsi næstu 29 árin hið minnsta. Lýsti hann henni sem sið­blindum ein­stak­lingi sem væri til­búin að segja og gera það sem henni hentaði hverju sinni. Hún hafi lagt á ráðin um að myrða Arthur og tekist ætlunar­verk sitt.