Par sem varð fyrir miklu tjóni vegna vatns­leka í Kópa­vogi segist ekki hafa heyrt frá trygginga­fé­laginu VÍS í kjöl­far lekans. Þau segjast þakk­lát fyrir alla að­stoð sem þau hafi fengið eftir á­fallið.

Lukasz Fry­drychewicz og kærasta hans Ewa Jaszczuk urðu fyrir miklu tjóni, bæði fjár­hags­lega og and­lega, er í­búðin sem þau voru með á leigu varð fyrir miklum vatns­skemmdum. Nánast allt inn­bú þeirra eyði­lagðist þegar vatns­lögn sprakk á Mar­bakka­braut í Kópa­vogi í desember.

Þau eru nú komin með nýja íbúð á leigu og eru al­sæl, en vilja fá svör frá trygginga­fé­laginu VÍS og Kópa­vogs­bæ varðandi á­byrgðina á vatns­lekanum sem kom þeim á götuna.

„Við erum flutt í nýja íbúð, við fengum íbúð í stúdenta­görðunum í Grafar­vogi. Þau leigðu okkur íbúð 22. desember, rétt fyrir jól, og við erum mjög á­nægð með það,“ segir Lukasz.

Leigusali Ewu og Lukasz hefur neitað að greiða þeim þriggja mánaða tryggingu þeirra til baka eftir lekann.
Fréttablaðið/ValgarðurGíslason

Hann segir að þau standi nú í stappi við fyrr­verandi leigu­sala sinn sem neiti að greiða þeim þriggja mánaða trygginguna til baka. Lukasz vonast til að úr þeim málum leysist sem allra fyrst, enda urðu þau fyrir miklu fjár­hags­legu tjóni.

Lukasz segir að bæjar­stjóri Kópa­vogs, Ás­dís Kristjáns­dóttir, hafi sett sig í sam­band. „Stuttu fyrir jól hafði Ás­dís sam­band við mig, eftir að ég hafði beðið um að komast á fund með henni. Hún sagðist vera allt of upp­tekin til þess að hittast en sagði að hún væri miður sín yfir lekanum,“ segir hann.

Að sögn Lukasz bauð Ás­dís þeim á­falla­hjálp, sem þau fengu í formi peninga. „Við fengum 140 þúsund krónur frá Kópa­vogs­bæ. Það nær ekki yfir helminginn af tjóninu,“ segir hann.

Nokkrir íbúar í hverfinu urðu fyrir miklu tjóni þegar lögnin sprakk.
Fréttablaðið/ValgarðurGíslason

Kópa­vogs­bær er eig­andi vatns­lagnarinnar sem sprakk. VÍS er trygginga­fé­lag bæjar­fé­lagsins og hvatti það fólk sem varð fyrir tjóni vegna lekans að til­kynna það til sín. Lukasz segir að engin svör hafi borist frá VÍS vegna málsins.

„Það eru engin ný skila­boð, málið situr bara kyrrt. Við erum enn að bíða eftir skýrum svörum frá VÍS og Kópa­vogs­bæ,“ segir Lukasz. Hann vonist til að eitt­hvað gerist í málinu á nýju ári.

„En við erum hamingju­söm, við erum með þak yfir höfuðið og erum mjög þakk­lát fyrir alla hjálpina sem við höfum fengið,“ segir Lukasz.

Frétta­blaðið hafði sam­band við VÍS vegna málsins, en ekkert svar barst í gær.