Vaida Bražiūnaitė, verk­efna­stýra Tungu­mála­töfra, opnaði sig um það um helgina hvernig hún hefur nokkrum sinnum farið í við­tal á ís­lensku en þau aldrei verið birt, þar sem hún þótti ekki tala nógu skýra íslensku.

Vaida, sem upp­runa­lega er frá Litháen, á­varpaði mál­þingið sem fram fór í Edin­borgar­húsinu á Ísa­firði um helgina. Á mál­þinginu var fjallað um ný­­sköpun í náms­að­­ferðum og náms­­gagna­­gerð. Auk þess var fjallað um leiðir til að auka þátt­töku inn­flytj­enda í tóm­­stunda­­starfi á sumrin.

Á­­varp hinnar ní­tján ára gömlu Ayuh Ahmad af mál­þinginu hefur vakið mikla at­hygli en greint var frá því í Frétta­blaðinu í dag.

Vaida er eins og áður segir verk­efna­stjóri Tungu­mála­töfra, en um er að ræða sumar­nám­skeið sem ætlað er 5-11 ára gömlum börnum, bæði af ís­lenskum og er­lendum upp­runa, en til­gangurinn er að efla ís­lensku­kunn­áttu í gegnum list­sköpun og leik.

„Mér finnst mjög krefjandi að tala ís­lensku. Sér­stak­lega á sviði, í sjón­varpi eða út­varpi. Talandi um það síðasta, að þá var það nokkrum sinnum sem að við­tal var tekið við mig en aldrei birt, vegna ó­skýrrar ís­lensku,“ segir Vaida.

Hún segir að hún hafi því næstum fengið hjarta­á­fall þegar hún var beðin um að fara í við­tal í Landanum á RÚV til að tala um Tungu­mála­töfra. „Nei, aldrei aftur!“ Hún hafi þó látið til­leiðast á endanum og við­talið gengið á­gæt­lega.

„Það þarf mikið átak til að tala ís­lensku. Oft finn ég von­leysi, en eftir að hafa hlustað á ræðurnar hennar Elizu Reed, eða Eliza Reed, nokkrum sinnum, hugsaði ég: „Vá!“ hversu hug­rekk kona hún er,“ segir Vaida.

Eliza sé frá­bær fyrir­mynd fyrir inn­flytj­endur líkt og Vaidu. Hún segir að Tungu­mála­töfrar hafi ýtt sér á­fram á marga vegu til að bæta eigin ís­lensku. „Þeir eru líka fjörugir og hafa gefið mér svo mikinn kraft í hendurnar, vegna þess að þeir voru hannaðir fyrir fjöltyngi, svo ég leyfi mér líka að gera mis­tök, að vera sem­sagt fjöltyngd verk­efna­stýra, sem beygir stundum rangt og ruglar orðum,“ segir Vaida.

„Hvernig getur þú annars lært ef þér er aldrei gefinn mögu­leiki á að gera mis­tök?“

Upptöku af ávarpi Vaidu má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan: