Christine Blasey Ford, konan sem segir Brett Kavanaugh hafa reynt að nauðga sér þegar hún var ung, hefur orðið fyrir líflátshótunum og áreiti eftir að hún steig fram. BBC greinir frá.
Kavanaugh var í sumar útnefndur til embættis dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Útnefning hans er nú til meðferðar hjá öldungadeild þingsins en hann hefur undanfarið svarað spurningum þingmanna um hin ýmsu álitamál.
Ford sakar Kavanaugh um að hafa undir áhrifum áfengis reynt að nauðga sér árið 1982 þegar þau voru ung og bjuggu í Washington D.C. Þannig hafi hann reynt að rífa af henni fötin, haldið henni nauðugri og sett hönd sína fyrir munn hennar þegar hún reyndi að hrópa á hjálp. Kavanaugh hefur hafnað ásökununum.
Lisa Banks, lögmaður Ford, segir að hún muni ekki koma frammi fyrir öldungadeild þingsins í ljósi ásakananna. Það sé einkum vegna þess að hún og fjölskylda hennar hafi fengið hótanir. Fátt annað hafi komist að síðustu daga en Banks segir Ford og fjölskyldu hafa þurft að yfirgefa heimili sitt.
Þá hafi óprúttnir aðilar brotist inn á tölvupósthólf hennar og búið til gerviaðgang í hennar nafni á samfélagsmiðlum á netinu. Einhverjir þingmanna öldungadeildar hafa farið fram á rannsókn alríkislögreglunnar á ásökununum á hendur Kavanaugh.
Athugasemdir