Frá og með 1. janúar 2022 verða allir ferðamenn sem ekki eru með staðfesta næturgistingu í Feneyjum á Ítalíu rukkaðir um komugjald. Yfirvöld tilkynntu þetta í vikunni.

Fen­eyj­ar eru fjöl­sótt­ur ferðamannastaður allt árið um kring en er þetta gert til að reyna að koma í veg fyrir þann vanda sem fylgir gríðarlegum straumi ferðamanna í borginni. CNN greinir frá.

Í venjulegu árferði koma um 60 þúsund ferðamenn til Feneyja á degi hverjum eða rúmlega tuttugu milljónir á ársgrundvelli. Alls búa um 50 þúsund manns í gamla borgarhluta Feneyja, svo ferðamenn eru þar ætíð í meirihluta. Borgarbúar hafa lengi kvartað vegna hins mikla fjölda ferðamanna.

Yfirvöld hafa því ákveðið að setja á komugjald til borgarinnar fyrir þá ferðamenn sem koma í dagsheimsóknir.

Innleiða átti gjaldtökuna í sumar en vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að fresta aðgerðunum til ársins 2022.
Efnahagur borgarinnar byggir að mestu leyti á ferðaþjónustu og því hafa Feneyjar orðið fyrir miklum tekjumissi í heimsfaraldrinum, þar sem fjöldi verslana og veitingastaða hafa neyðst til að loka.

Heimamenn bíða nú örvæntingarfullir eftir að ferðamenn snúi aftur til borgarinnar en margir eru að vona að faraldurinn hafi skapað tækifæri fyrir borgina til að breyta ferðaþjónustunni til hins betra. Fjarvera ferðamanna í borginni hefur m.a. haft jákvæð áhrif á náttúrulíf í borginni en í vor varð ótrú­leg breyt­ing á síkj­um Fen­eyja, en þau eru orðin tær­ari en áður og fisk­arn­ir eru nú sjá­an­leg­ir í vatn­inu eftir að hafa verið menguð í mörg ár.