Félagasamtökin sem rýma þurftu Brákarbraut 25 til 27 í Borgarnesi fyrir ári geta sótt um styrk upp á samanlagt 7,5 milljónir króna til að koma starfseminni fyrir á nýjum stað. Þau þurftu að víkja úr húsnæðinu vegna ákvörðunar slökkviliðsstjóra um ófullnægjandi brunavarnir.

Félögin sem geta fengið styrki eru Fornbílafjelag Borgarfjarðar, bifhjólafélagið Raftarnir, körfuknattleiksdeild Skallagríms, Skotfélag Vesturlands og Golfklúbbur Borgarness. Hefur ríkt nokkur óánægja með rýminguna og hefur formaður skotfélagsins til að mynda gagnrýnt hana harðlega.

Samkvæmt skýrslu verkfræðistofunnar Verkíss myndu endurbætur á húsnæðinu, til að hægt sé að koma starfseminni aftur fyrir, kosta 600 milljónir króna. Þann kostnað er sveitarfélagið ekki reiðubúið að leggja í og óvíst hvað verður um húsnæðið.