Félögin ACE FBO og Global Fuel voru fyrir skemmstu dæmd til þess að greiða þrotabúi ACE Handling, fyrrverandi systurfélagi, samanlagt rúmlega 6 milljónir króna, í tveimur samhangandi riftunarmálum. Eru félögin tvö, sem eru í eigu Hilmars Ágústs Hilmarssonar, auk þess dæmd til að greiða málskostnað, samanlagt 1,6 milljón króna.

Félögin komust fyrst í deiglu fjölmiðla sumarið 2018, þegar DV greindi frá því að Sigurður Ingi Þórðarson, títtnefndur Siggi hakkari, færi fyrir ACE Handling. Hefði hann þar með aðgang að haftasvæðum flugvalla, þrátt fyrir að hafa dóma fyrir kynferðisbrot og fjársvik á bakinu. Á þessum tíma hafði ACE Handling þegar óskað eftir gjaldþrotaskiptum.

Málið gegn ACE FBO snerist um afsal á stigalyftu fyrir flugvélar, sem seld hafði verið eftir frestsdag án greiðslu. En fyrir dómi vitnaði Alma Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri, um að hafa séð ACE FBO reyna að selja lyftuna og 16 önnur tæki, til hins nýstofnaða flugfélags Play.

Taldi Arnar Þór Jónsson dómari félagið ekki hafa sýnt fram á að verðmæti lyftunnar væri minna en um 5 milljóna króna krafan sagði til um og ekki var fallist á að félagið fengi að skila henni.

Málið gegn Global Fuel snerist um greiðslur til tryggingamiðlunar í Svíþjóð sem ekki voru gjaldfallnar við greiðslu og taldi dómari fjárhæðina umfram hlutdeild ACE Handling í heildartryggingapakka systurfélaganna, eða um eina milljón. „Verður því ekki litið svo á að greiðslan geti talist venjuleg eftir atvikum,“ segir í dómnum.